12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Baldvinsson:

Það er mjög gleðilegt, hvað 3. umr. fjárl. hefir verið friðsamleg nú hér í hv. Ed. Það hefir ekkert orðið úr þeim árásum, sem hv. 3. landsk. þóttist ætla að hefja á stj. við þetta tækifæri. Sýnir það sem fleira, að ekki er um mikinn stefnumun að ræða milli Íhaldsins ,og Framsóknarflokksins. Ég er hv. 3. landsk. þakklátur fyrir að hefja ekki eldhúsdag nú til þess að láta okkur hanga hér ala nóttina. Hefir hann e. t. v. sleppt því af vorkunnsemi við okkur, nú í öllum önnunum. (JÞ: Vorkunnsemi við mig og aðra).

Annars stóð ég upp til að lýsa eftir, hvort hæstv. dómsmrh. ætlar ekki að svara fyrirspurn minni viðvíkjandi greiðslu stúdentastyrksins. Ég vænti,þess, að hann geri þá leiðréttingu, sem ég tel þingvilja fyrir, að borga stúdentum námsstyrkinn með gengismun. Meðan hæstv. ráðh. telur sig hafa heimild til að greiða konungsmötuna í dönskum krónum, ætti hann ekki síður að telja sér heimilt að láta fátæka stúdenta njóta sömu hlunninda. Þetta finnst mér hæstv. stj. ætti að taka til yfirvegunar. Hún hefir í þessu efni brotið venju, sem þingið hefir aldrei amazt við.

Ég þarf ekki að tala fyrir mörgum brtt. að þessu sinni. Ég flyt aftur till. um styrk til Árna Kristjánssonar. Við 2. umr. flutti ég till. um 2.000 kr. styrk til hans, og til vara 1.500 kr. Þegar ég samdi till. nú, mundi ég ekki eftir varatill. þeirri um daginn. En nú er venja, að ekki séu fluttar till. eins háar né hærri en þær, sem búið er að fella. Ég flyt því skriflega brtt. um 1.300 kr. styrk til Árna, þó ég telji það alltof lítið, til þess að hæstv. forseti vísi ekki till. frá vegna þess, að hún hafi verið felld áður. Vona ég að hv. dm. leyfi þau afbrigði, sem þurfa, til að þessi skriflega brtt. megi komast að, hvernig sem þeir greiða síðan atkv. um hana.

Hefi ég svo ekki ástæðu til að segja mikið fleira (Fjmrh.: Það er svo mikil friðsemd núna).

Ég var nú að reyna að ýta við hæstv. stj. við 1. umr., og ef hæstv. ráðh. óskar eftir ófriði, þá hefi ég nóg til að tala um við hæstv. stj. Ef ég á að fara að tala svona almennt, get ég minnzt á það, að hæstv. dómsmrh. tók mjög illa í merkilegt mál í Sþ. í dag, kjördæmaskipunina. Ég skil ekki, hvernig þeir ætla sér að ganga undir framsóknarheiti, sem standa vilja á móti því, að kjördæmaskipunin breytist, eftir því sem fólkið flyzt til. Þó ekki sæti t. d. nema einn karl eftir norður í Skagafirði, ætti hann eftir stefnu hæstv. ráðh. að hafa rétt til að kjósa tvo þm. Þetta er hið rammasta afturhald, sem hugsazt getur, enda viðurkenndi hæstv. ráðh., að það væri afturhald.

Þá hefir hæstv. dómsmrh. talað með miklu forsi um það, hvað kostnaðurinn við berklavarnirnar væri hár. En það er þingið sjálft, sem samþ. hefir að greiða þennan kostnað; ekki vegna sjúklinganna sjálfra, heldur til varnar hinum heilbrigðu. Það er eins og hæstv. ráðh. skilji ekki þetta, og þess vegna er hann alltaf að fjargviðrast út af þessu veika fólki. Það er ekki annað en heimska að vera að reyna að knýja þennan kostnað niður.

Eins er með stríðið, sem hæstv. ráðh. hefir sagt spítölunum á hendur; hann vill láta bæjar- og héraðsspítala hjúkra sjúklingunum fyrir minna gjald heldur en kostnaðurinn er við þá á ríkisspítölunum. Og þó þurfa þessir spítalar út um landið að standa straum af stofnkostnaði sínum. Bæjarfélögin hafa flest úr litlu að spila og eiga nógu erfitt með að halda spítölunum við, þó þeim sé ekki gert það erfiðara en þarf.

Það er ekki út af till. hæstv. ráðh. um hressingarhælið, að ég er að tala um þetta. En það er bara eins og það komi þessi nábítur í alla dómsmrh., þegar þeir tala um berklakostnaðinn. Ég man eftir því, að áður hafa ráðh. þeir, sem berklavarnir heyra undir, reynt á lævíslegan hátt að fá þm. til þess að gera berklasjúklingum erfiðara fyrir og færa kostnaðinn af ríkinu yfir á þá sjálfa eða aðstandendur þeirra, eða sveitarfélögin.

Það var nú eiginlega fyrir eggjun hæstv. stj., að ég fór að tala um önnur mál en fyrir liggja. Og ef hún svarar, sem hún sjálfsagt gerir, ef hún ekki finnur sökina á sér, vona ég, að hæstv. forseti gefi mér leyfi til andsvara. (Forseti: Það er nú spursmál við þessa umr.). Hæstv. forseti Nd. leyfði sínum dm. að hafa eldhúsdag við 3. umr, fjárl., og ég held við hljótum að fá sömu hlunnindi.

Þá skal ég minnast ofurlítið á þær till., sem fram hafa komið um rafveitur. Hv. 3. landsk. flytur till. um að veita 75 þús. kr. til raftaugakerfa í sveitum. Eins og hæstv. fjmrh. benti á, er þetta alveg órannsakað mál, og því vanhugsað að leggja út í það nú. En það er annarsstaðar, sem óhætt er að leggja fé í rafveitur. Það er í þéttbýli kaupstaðanna. Það er eðlilegt, að hæstv. ráðh. vilji ekki leggja fé í rafveitur um sveitirnar, sem engar líkur eru til að borgi sig, en það eru ekki nema sumir þeirra með rafveitum í kaupstöðum heldur, sem þó er þegar séð að eru arðvænleg fyrirtæki. A. m. k. var hæstv. dómsmrh. á móti rafveitunni á Siglufirði; sýnir sig þar afturhaldssemin, sem hann var að hæla sér af í dag. En það er ekki nóg með það. Nú á síðustu stundu flytur hæstv. dómsmrh. till. um að fella niður styrkina til flugferða. Flugið er nýjung, sem þegar er ögn búið að reyna hér og hefir gefizt vel. Gætu flugvélarnar eflaust komið okkur hér í strjálbýlinu að mjög miklum notum. A. m. k. ætti hæstv. dómsmrh. ekki að amast við þeim, sem hefir skrifað svo fagurlega um það, að bréfapóstur eigi í framtíðinni að komast jafnsnemma inn á hvert heimili á landinu og helzt daglega.

Ég vil geta þess í þessu sambandi, að sá maður, sem mest hefir unnið fyrir flugmálið hér á landi, mun hafa fengið loforð um það hjá Junkersverksmiðjunum í Þýzkalandi, að þær leggi fram fé til flugsins hér, ef sæmilegur fjárhagslegur grundvöllur fæst hér heima.

Mér finnst hæstv. dómsmrh., sem margar till. hefir gert um framtíðarmál þjóðarinnar, ætti nú að fara að lesa upp sín fyrri skrif og vita, hvort hann er hvergi kominn í ósamræmi við þau.