26.02.1930
Neðri deild: 37. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (2674)

142. mál, slysatryggingar

Halldór Stefánsson:

Ég stend alls ekki upp til að mótmæla þessu frv., því að mér þykir það ekki nema eðlilegt, að það sé leitað einhverra bóta á dagpeningum til samræmis við það, sem aðrar bætur voru hækkaðar 1928, svo sem dánarbætur og öryrkjabætur.

Frv. fer að vísu ekki fram á hækkun hinna ákveðnu dagpeninga, heldur að menn fái rétt til bóta þremur vikum fyrr en áður var. Ég held, eins og hv. flm., að þetta væri hægt að gera án þess að hækka iðgjöldin frá því, sem þau eru nú ákveðin. Ég hefi gert lítilsháttar athugun á því, hverri útgjaldahækkun fyrir trygginguna þetta mundi valda, ef það væri samþ., og ég hygg, að það megi telja 10–20 þús. kr., sem auðvitað fer eftir því, hvað slys verða mörg árlega. Því að mér telst til, að þetta mundi nema rúmum 100 kr. fyrir hvern slasaðan mann, og slys eru einhversstaðar á milli 100 og 200 á ári. Það er talsvert mismunandi.

En þó að ég segi þetta, þá þykir mér fulllangt gengið að ætla ekki nema eina viku frá því að slys vill til þar til hefst réttur til bóta. Það mundi auka ákaflega skriffinnsku og fyrirhöfn við trygginguna og valda vafa í ýmsum tilfellum. Þá mundi þurfa að hefja skriftir, vottorðagjafir og skýrslugerð undir eins, hvað lítið áfall eða meiðsli sem fyrir kemur, því vel getur farið svo, þó að meiðslið sé lítið í upphafi, að það hafist illa við og geti valdið vinnutjóni um lengri tíma en eina viku. Ég vildi beina því til hv. flm., hvort hann gæti ekki sætt sig við, að það yrðu ákveðnar tvær vikur í staðinn fyrir eina. Sömuleiðis vildi ég benda hv. allshn., sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar, á að athuga þetta.

Frv. tekur, eins og það liggur fyrir, ekki til annars en þessara breyt. En ef lögunum væri breytt á annað borð, þá virðist mér þurfa að taka til athugunar, hvort ekki þurfi að gera fleiri breyt. Og það, sem ég hefi þá einkum í huga, er breyt., sem gerð var 1928, þess efnis, að jafnan skuli vera skylt að halda próf í hverju slysamáli. Fyrr var svo ákveðið, að próf skyldi haldið, þegar lögreglustjóra þætti ástæða til, eða ef tryggingarstofnunin óskaði þess. Þau ákvæði voru skynsamleg og alveg fullnægjandi. Ég býst við, að það hafi vakað fyrir mönnum, þegar breytingin var gerð, að það væri nauðsynlegt í öllum tilfellum að fá próf um slysið, til að upplýsa það, hver væri hin raunveruleg orsök þess. Ég hefi nú kynnzt þessum málum síðan ég tók við stjórn trygginganna, og það má segja nærri undantekningarlaust, að prófin upplýsi ekkert annað en það, sem hin önnur skjöl málsins, tilkynningarnar og læknisvottorðin, upplýsa. Prófin hafa því reynzt í þessu tilliti þýðingarlaus og gagnslaus. En þau kosta mikla fyrirhöfn og nokkurt fé. Þar á ég bæði við kostnað við réttarhöldin og tímatöf og bein og óbein útgjöld þeirra, sem kallaðir eru til prófs. Þetta getur verið talsvert dýrt, ef langt þarf að sækja til prófs. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að úti um sveitir landsins vilja slysin oft til í mikilli fjarlægð frá sýslumönnunum, og til þess að geta haldið próf, sem nokkuð er á að byggja, þurfa þeir að kalla fyrir rétt sjónarvotta að slysinu og þá, sem slasast. Það tefur afgreiðslu. málanna og er mjög fyrirhafnarsamt og tefur fyrir því, að slösuðu fái réttmætar bætur. Ég vil á ný vekja athygli á ákvæðum laganna eins og þau voru fyrir 1928, því að. þau voru miklu skynsamlegri. Ég teldi réttast að breyta lögunum í líkt horf og þá. Ég skyldi ekki hafa á móti að fá eitthvað skýrar ákveðið í greininni, að jafnan, þegar lögreglustjóra eða tryggingunni þætti ástæða til að halda, að slysið hefði viljað til fyrir hirðuleysi atvinnurekanda eða annara, eða fyrir illan útbúnað á vinnutækjum, þá skyldi jafnan halda próf.

Enn vildi ég vekja athygli á því, hvernig lögin eru orðuð um stjórn tryggingarinnar, þótt það sé reyndar minna vert. Nálega jafngömul og slysatryggingalögin frá 1928 eru lögin um samstjórn tryggingastofnana ríkisins, þar sem svo var ákveðið, að forstjóri tryggingastofnananna skuli verða framkvæmdarstjóri hinna einstöku tryggingadeilda. En orðalagið í þeirri grein slysatryggingalaganna, sem segir fyrir um þetta, er ekki í samræmi við lögin um samstjórn tryggingastofnananna.

Þá vildi ég benda á það, að stjórn trygginganna hefir sér til ráðuneytis lækni til þess að athuga hin ýmsu sérfræðilegu atriði, er fyrir koma, og gera till. út frá því. Þetta er eðlilegt og nauðsynlegt, vegna þess að stj. tryggingarinnar hefir ekki sérþekkingu á því, hvernig sjúkdómum út af meiðslum er varið. Einnig eru læknisvottorðin margoft rituð að mestu leyti á latínu, sem ekki er nema lærðra manna og sérfræðinga að skilja. Það gæti verið hagkvæmt fyrir tryggingarnar, ef annar stjórnandinn væri læknir. Þá mundi geta að mestu eða öllu sparazt sérstök þóknun til hans. Eins væri miklu hentugra að hafa lækni til viðtals á fundum, þegar slysamál liggja fyrir. Ég hefi viljað vekja athygli bæði nefndar og deildar á þeim atriðum, sem ég hefi gert að umtalsefni.