12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

1. mál, fjárlög 1931

Páll Hermannsson:

Það voru tvær till., sem ég minntist ekki á áðan, en ég vil nú drepa örlítið á.

Önnur brtt. er á þskj. 497, III, við 13. gr. B. XV., frá hv. 6. landsk., að liðurinn falli niður. Þessi liður er styrkbeiðni, 4. þús. kr., til að reisa gistihús á Húsafelli. Þessi till. var rædd við 2. umr. Þá lýsti ég yfir því, að mér þætti það ekki fullkomið réttlæti að veita sumum mönnum tugi þúsunda til að reisa gistihús fyrir ferðamenn, en neita öðrum algerlega um styrk til þess sama, þó að þeir virtust hafa alveg eins mikinn rétt til hans. Það strandaði á mér í n., að þessi styrkur væri tekinn út. Það var fyrst og fremst vegna þess, að ég var ekki viss um, að það væri neitt ósanngjarnara að veita þennan styrk en styrkinn til Fornahvamms, Bakkasels eða Ásólfsstaða eða jafnvel Kolviðarhóls. Sem sagt, mér fannst spurning, hvort það mundi auka nokkuð á réttlætið, þó að þessi styrkur væri tekinn út og vildi því láta hann afskiptalausan.

Ég er óánægður með það, að menn haldi því fram, sem mér finnst vera algerð staðleysa, að ekki megi hjálpa til að byggja á öðrum jörðum en þeim, sem ríkið á. Ég sé ekki að nein vissa sé fyrir því, að ríkið eigi þær jarðir, þar sem helzt þarf að reisa gistihús. Að gistihús í sveitum beri sig, finnst mér ekki ná nokkurri átt, þegar litið er á byggingarkostnaðinn. Hvernig mundu gistihús bera sig hér í Reykjavík, sem væru notað aðeins nokkurn hluta ársins og stæðu svo tóm mánuðum saman? Þannig er það með gistihús í sveitum. Þó að þau séu full vor, sumar og haust, þá standa þau tóm mikinn hluta vetrarins, því að þá er umferð þar mjög lítil.

Hin brtt., sem ég vildi minnast á, er á sama þskj. XXII., við 16. gr. 1. Hún er um það, að af fjárveitingunni til Búnaðarfélags Íslands skuli ganga 8 þús. til Kvenfélagasambands Íslands. Ég þarf ekki að taka það fram, öllum dm. er það kunnugt, að meiri hl. fjvn. var með því, að nema burt þennan 8.000 kr. styrk, sem í frv. stóð, þegar það kom frá Nd. Það álit meiri hl. n. byggist á því, að hann áleit, að starfsemi sú, sem sambandið hyggst að hafa með höndum, er engan veginn svo vel undirbúin, að ástæða sé til. að veita því svo háa upphæð, sem farið var fram á í till. Nú hefir verið breytt þannig til, að þessi upphæð skuli tekin af því fé, sem Búnaðarfélaginu er ætlað, en sú breyting breytir í engu þeirri niðurstöðu, sem meiri hl. n. komst að. Þetta kvenfélagasamband hefir náttúrlega ekki meiri rétt á því að fá þessa peninga frá Búnaðarfélaginu en beint frá ríkissjóði. Í öðru lagi vil ég benda á það, að stj. Búnaðarfélags Íslands, a. m. k. meiri hluti hennar, er þessu algerlega mótfallin, og enda þótt flm., hv. 2. þm. S.-M., hafi getið um það, að annar búnaðarmálastjórinn hefði að nokkru leyti verið í ráðum með sér um þessa till., þá hefir hann þá að líkindum ekki ráðfært sig við stj. Búnaðarfélagsins, eða meiri hluti hefir ekki verið honum sammála, og ég held, að sama sé að segja um meiri hl. landbn. þessarar d. Hann lítur svo á, að ekki sé rétt að taka upp þá venju að vísa svona félagi á það fé, sem búið er að ákveða til handa Búnaðarfélagi Íslands. Ég vildi mælast til þess, að hv. flm. sæi sér fært að taka þessa till. aftur. Mér finnst margt benda til þess, að hún sé fram komin á óviðeigandi hátt. En vilji hann það ekki, þá vil ég ráða d. eindregið til að fella þessa brtt.