04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2057 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

64. mál, vigt á síld

Haraldur Guðmundsson:

Hv. 1. þm. S.-M. hefir réttilega bent á, að það sé rangt, að það baki seljendum og kaupendum síldar nokkur óþægindi, þó að frv. þetta verði að lögum. Enda er mér sagt, að þar, sem mest er keypt af síld til bræðslu á Norðurlandi, sé hún undantekningarlaust vegin, en ekki mæld. Ég ætla, að vögnunum sé ekið yfir vog og síldin þannig vegin um leið og þeir renna yfir vogina. Tekur þetta ekki nema brot úr mínútu með hvern vagn.

Við sjáum því, að þar, sem bræðslustöðvar eru elztar og hafa mesta umsetningu, hafa þær viðurkennt nauðsyn þess og hagkvæmni að vega síldina. Þá verður ekki um það deilt, hvað mikið síldarmagnið er, sem skipin láta af hendi.

Hv. 2. þm. G.-K. vildi segja, að ákvæðið um mælikerið, sem sett er í frv., sé þýðingarlaust, og ennfremur bætti hann við, að eftir frv. væri gert ráð fyrir, að mæliker taki 6 kg. meira en hv. 3. landsk. reiknaði með, þegar hann rannsakaði og undirbjó stofnun síldarverksmiðju. Þetta er hvorugt rétt hjá hv. þm. Það hefir að sjálfsögðu mikla þýðingu vegna sjómanna, sem fá premíu af afla. að ákveða, hversu mikinn þunga mælikerið skuli taka. Hitt kann að vera rétt, að það skipti ekki verulegu máli, hvort kerið tekur 135 kg. eða eitthvað annað, ef stærð þess aðeins er ákveðin. En hv. 3. landsk. reiknaði ekki með 139 kg. Ég hefi fyrir satt, að hann hafi reiknað með 137 eða 138 kg., en annars má sjá það í skýrslu hans. Það, sem er aðalatriðið í þessu máli, er það, að það sé tryggt, að rétt sé virt til verðs og vegin síldin, sem skipin afhenda og verksmiðjur kaupa. Og það verður ekki betur gert en með því að ákveða, að síldin skuli öll vegin á vog, eins og verksmiðjur gera nú á Norðurlandi, sem lengst hafa við þetta fengizt. Ég sé enga ástæðu til að leyfa öðrum verksmiðjum að komast hjá að viðhafa sömu nákvæmni.