07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (2748)

64. mál, vigt á síld

Ólafur Thors:

Það eru aðeins tvö atriði, sem ég vil benda á, að annarsvegar, samkvæmt þessum lögum, ef brtt. verður samþ., þá getur hver seljandi sem er krafizt þess, að síldin verði vigtuð, og þá hlýtur hann þetta mikla hnoss, sem seljendunum er ætlað samkv. þessum lögum. Og svo er annað, það, að nákvæmlega þessa sömu till. bar hv. 4. þm. Reykv. fram í fyrra, og geri ég þess vegna ráð fyrir því, að úr því að sú till. var þá í hans augum það meinlaus, eða jafnvel gagnleg, að hv. þm. bar hana fram, að hún sé heldur ekki orðin stórskaðleg nú.