10.04.1930
Efri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (2752)

64. mál, vigt á síld

Jón Þorláksson:

Ég hefi ekki almennilega áttað mig á því undir ræðu hv. þm. Ak., í hvorri deild Alþingis ég væri staddur. Ég hefi að vísu séð hér í kringum mig eintóma efrideildar-þingmenn, með hæstv. forseta Ed. í hástóli; en ræðan, sem ég hlýddi á, fannst mér öll eiga heima í hv. Nd., nema syndajátning sú, sem þm. gerði um afglöp sín í þeirri hv. deild. Um það mátti hann auðvitað eins skrifta hér fyrir deildarbræðrum sínum. Þó get ég ekki neitað því, að mér fannst það óþarft af hv. þm. að vera að taka þessa einu yfirsjón út úr og biðja afláts fyrir hana hér. En ef hann ætlar að fara að hafa hér almenna syndajátningu á öllum þeim ávirðingum, sem honum hafa orðið utan deildarinnar, geri ég ráð fyrir, að oss hinum gæti orðið ærið tafsamt að þurfa að hlýða á það allt.

Út af þeim ummælum, sem hv. þm. Ak, beindi til hv. 2. þm. G.-K., er ekki getur svarað fyrir sig á þessum stað, vil ég aðeins segja, að orð hv. þm. eru algerlega einhliða og sýnilega sögð af nokkurri óvild. Veit ég því, að hv. þdm. taka ekki meira mark á þeim en þau eiga skilið.