10.04.1930
Efri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2070 í B-deild Alþingistíðinda. (2753)

64. mál, vigt á síld

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Það er mannlegt og vel hugsað af hv. 3. landsk. að hjálpa hér ofurlítið upp á flokksbróður sinn, hv. 2. þm. G.-K. Það, að ég svarað þeim hv. þm. hér í hv. Ed., orsakaðist af því, að ég mátti til að láta sjást svar við ummælum hans í þingtíðindunum. Ég veit, að hv. 3. landsk. er sammála mér um það, að oft er nauðsynlegt að tala þannig fyrir þingtíðindin. (JÞ: Þeir fá svo margt annað leiðinlegt að lesa). Heldur hv. þm., að hv. kjósendum leiðist það sem hann talar í þingtíðindin? Það má vel vera, og ég býst við, að það sé eins með okkur báða, að við séum sumum mönnum leiðir hvor um sig, en kannske ekki báðir þeim sömu. — Hv. 3. landsk. talaði um, að ég mundi þurfa langan tíma til að skrifta allar þær yfirsjónir, sem ég hefi gert utan deildarinnar. Má vera, að satt sé, en ætli það sé þá ekki eins um fleiri? Varla mundi hv. 3. landsk. sjálfur komast af með minni tíma. Fyrir þau örfáu verk, sem hann hefir unnið fyrir Akureyrarkaupstað, skil ég ekki, að hann væri skemur en 2–3 ár að skrifta. Svo mikil voru afglöpin.

Þessi hv. þm. var aðalforstöðumaður fyrir byggingu vatnsveitu Akureyrarbæjar. Þar tókst honum ekki betur en svo, að miðhluti vatnsveitunnar flytur 1/3 minna af vatni en efsti og neðsti hluti hennar. Önnur vitleysa, sem hann gerði, — (Forseti GÓ: Má ég minna hv. þm. á það, að hann er alveg kominn út frá efninu. Ég vildi helzt óska, að hv. þdm. hér færu ekki að taka upp þann sið á þingfundum, sem tíðkast í hv. Nd., að ræða um allt annað en það, sem er á dagskrá. Það mundi spilla mjög mikið því áliti, sem þessi hv. deild hefir átt skilið hingað til. Að fara svona í mannjöfnuð, en tala ekkert um málið, það kann ég ekki við).

Ég skal þá alveg hverfa frá að fara í mannjöfnuð við hv. 3. landsk. út af þessu nú, en til væri ég með, að við athuguðum þessi mál á öðrum stað. En af því að þessum hv. þm. var leyft að kasta fram ummælum um afskipti mín af einu og öðru utan þings, þá var ég að byrja á ofurlitlum parti af hans eigin æfisögu.

En fyrst ég má ekki láta sjást neitt í þingtíðindunum af æfisögu hv. 3. landsk., þá get ég það kannske einhversstaðar annarsstaðar, ef hann langar til.