11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (2780)

158. mál, skráning skipa

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Vegna ummæla, sem fram komu við 2. umr. þessa máls, hefi ég aflað mér nokkurra upplýsinga á kostnaði við framkvæmd þessa frv., ef það yrði að lögum. Þær upplýsingar, sem ég hefi fengið, hafa ekki gefið mér ástæðu til að skipta um stefnu í málinu, því að þær hafa staðfest það, sem áður hafði verið upplýst fyrir sjútvn., í fyrsta lagi, að það er þörf á betra fyrirkomulagi á skráningu skipa, og í öðru lagi, að kostnaður er tiltölulega mjög lítill. Ég gat þess við 2. umr., af því það komu fram mjög mismunandi skoðanir um, hvað kostnaðurinn mundi vera mikill, að rétt væri að athuga til 3. umr., hvort n. hefði fengið ranga hugmynd um kostnaðarhlið málsins, en ég get ekki séð, að svo hafi verið.