01.02.1930
Efri deild: 11. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

34. mál, landhelgisgæsla

Flm. (Halldór Steinsson):

Ég gat nú búizt við að fá betri undirtektir en raun varð á hjá hæstv. dómsmrh., eftir þeim undirtektum, sem frv. mitt fékk 1928. Hæstv. ráðh. sagði, að ástæður væru mikið breyttar frá því sem var 1928. En ég vil nú halda því fram, að þær séu æðisvipaðar. Þá höfðum við 2 skip til gæzlunnar, og við höfum sömu tölu enn. Þörfin fyrir vörzlu er eins mikil nú og þá, og enn höfum við ráð á að byggja skip.

Mér þótti hæstv. ráðh. taka naumast nógu djúpt í árinni, er hann sagði, að Ægir hefði orðið talsvert dýrari en Óðinn. Eftir því, sem mér hefir verið sagt, þá hefir Ægir kostað yfir millj. kr., og þá orðið allt að því hálfu dýrari en Óðinn. Samt hefir hann engin betri né meiri skilyrði til að gera frekara gagn en Óðinn.

Hæstv. ráðh. sagði, að rekstrarkostnaður yrði mikill. Það er rétt, og ég viðurkenndi það líka í ræðu minni. En hinu hélt ég líka fram, að svo margt væri gert annað, er nauðsynlegt mætti teljast, sem þó gæfi engan beinan arð í ríkissjóð. Ég nefndi brúa- og vegagerðir og strandferðir, sem óbeinlínis gæfu afarmikinn arð, eða gerðu gagn.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að byggt yrði skip, ef það svo bæri sig í rekstri. Ég get nú ekkert þakkað honum það, því ef svo væri, þá gæti það orðið hreinn og beinn búhnykkur fyrir ríkissjóðinn. Ef svo væri, þá þyrfti fráleitt að sækja þetta mál af neinu kappi: En ég hélt engu slíku fram í fyrri ræðu minni.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að kröfur myndu koma fram frá ýmsum stöðum öðrum, ef þetta skip yrði byggt og notað til að verja Faxaflóa og Breiðafjörð. Ég sagði ekkert um það, hvar þetta skip ætti að starfa. Það yrði vitanlega verk stj. að ákveða það á hverjum tíma. Hitt er heldur ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að t. d. gæzlan í Vestmannaeyjum og Breiðafirði geti ekki farið saman. Á haustin er mest þörf góðrar gæzlu á Breiðafirði, en þá er hennar ekki þörf í Vestmannaeyjum.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ég hefði ekki farið rétt með, þegar ég sagði, að landhelgisgæzlan fyrir Snæfellsnesi hefði farið fram í mesta ólagi síðastl. haust, og þóttist hafa góðar heimildir fyrir því. Það er svo fjarri öllum sanni, að ekki hafi í manna minnum fiskazt eins mikið vestra og síðastl. haust, að þetta er fremur öfugt: Að ekki hefir í manna minnum fiskazt þar eins lítið. Ég veit ekki, hvaða sögumenn hæstv. dómsmrh. hefir fyrir þessari aflaskýrslu sinni, en hitt veit ég, að þeir hljóta að vera með öllu ókunnugir þessum hlutum. Ég ætti að vera svo kunnugur fyrir vestan, að geta fullyrt það. Hinsvegar dettur mér ekki í hug að halda því fram, að þessi aflabrestur stafi eingöngu af yfirgangi togaranna, heldur kemur þar líka til greina, að illt hefir verið að sækja sjóinn vegna ógæfta, það sem af er. Það er rétt, að fram að jólum var lítið af togurum á miðunum fyrir vestan, eins og ég líka tók fram í fyrri ræðu minni, en eftir þann tíma hefir verið stöðugum ágangi að mæta frá þeirra hálfu. Ég sendi sjálfur dómsmrh. skeyti um þetta, og ég vissi til, að annar maður gerði það sama á jóladaginn. En það kom ekkert svar við þessum skeytum. Ég verð því að halda því fram, að gæzlan á þessum slóðum hafi með öllu verið óviðunanleg yfir þennan tíma.

Þá talaði hæstv. dómsmrh. um notkun varðskipanna til annars en strandvarna og þótti við sjálfstæðismenn sýna þar skilningsleysi. Mér fannst ég nú jafnvel tala vægar um þessa misnotkun skipanna en ástæða var til. Ég sagði, að það væri óhæfa, hve skipin væru mikið notuð til annara þarfa en þau væru ætluð, þ. e. strandvarnanna. Og ég stend við það, að skipin á fyrst og fremst að nota til strandgæzlunnar, en ekki til snattferða. Hæstv. ráðh. kom með þá fyrirspurn, hvort ekki væri rétt að nota skipin til að flytja sjúkling til læknis. Jú, ég tel það bæði sanngjarnt og mannúðlegt, að skipin séu notuð til þess, enda talaði ég ekki um slík tilfelli. Og hvað skyldu þau vera mörg, þau tilfelli, af öllum þeim ferðum, sem varðskipin hafa verið látin fara utan síns verkahrings? Ég fyrir mitt leyti get aldrei fallizt á þá skoðun hæstv. dómsmrh., að rétt sé að nota skipin í snattferðir. Slíkt má því aðeins koma fyrir, að það fari ekki í bága við sjálfa strandgæzluna.

Hæstv. dómsmrh. drap á það, að auk íslenzku strandvarnarskipanna hefðum við danskt gæzluskip samkv. sambandslögunum. Þetta er mikið rétt. En ég legg ekki mikið upp úr gæzlu þessa danska skips. Það hefir ekki kveðið meira að því en svo til þessa, að við Snæfellingar a. m. k. vitum varla, hvort það er til eða ekki.