01.02.1930
Efri deild: 11. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

34. mál, landhelgisgæsla

Dómsmrh:

(Jónas Jónsson): Ég ætla ekki að svara hv. þm. Snæf. að þessu sinni, enda mun ég fá tækifæri til þess við síðari umr. þessa máls. Ég vil þó benda honum á það, að það er ekkert rangt í því, sem ég sagði, að fiskazt hafi með betra móti vestur undir Jökli í haust, á meðan á sjó gaf. Hitt er ekkert undarlegt, þó að ekki hafi verið hægt að stunda sjó að neinu ráði frá hinni vondu höfn í Ólafsvík í þeim illviðraham, sem verið hefir í vetur. Fiskiskilyrðin eru mjög góð þarna vestra. Mér er kunnugt um það, að sjómenn láta mjög vel yfir, hve fiskurinn gengur þar grunnt. Hvað togarana snertir, þá hefir með betri reglu á strandvarnarskipunum tekizt að skjóta þeim nokkrum skelk í bringu. Þeir eru nú hræddari en þeir áður voru við þau. Ég býst við því, að hv. þm. Snæf. yrði ekkert sérlega ánægður, ef það væri athugað, hvað Ægir hefir legið lengi inni á höfnum; og hinsvegar, hve Þór og Óðinn lágu oft inni í tíð fyrrv. stj. A. m. k. er það almennt óánægjuefni sjómannanna á varðskipunum, hve skipin liggja lítið inni á höfnum. Þeir segjast aldrei fá tækifæri til að skemmta sér — og bera sig saman við hina gullnu tíð Íhaldsins, sem von er.

Þá kem ég að ræðu hv. 3. landsk. Hann stendur ekki vel að vígi með að tala um snattferðirnar svonefndu. Hann hefir í því efni fleira á samvizkunni en það, að hann lét Óðin flytja sig vestan úr Dölum, er hann var að reyna að eyðileggja fylgi hv. þm. Dal. þar. Ég minnist þess, að hann hringdi í vetur upp í stjórnarráð og bað um, að eitthvert varðskipanna yrði látið flytja son gamals manns, sem lá fyrir dauðanum, milli hafna á Norðurlandi. Þetta var, að ég bezt veit, gert fyrir hv. 3. landsk. Hinsvegar er það ekki bókfært, og ég get heldur ekki sannað, að hann hafi verið í símanum. En ég tók það trúanlegt. Skyldi nú líka eiga að kasta steini í mig fyrir misnotkun varðskipanna í þessu tilfelli.

Hv. 3. landsk. hélt því réttilega fram, að allar stj. þyrftu að einhverju leyti að nota varðskipin til snattferða, sem kallað er. En hann bætti því við, að núv. stj. gerði of mikið að því, og að þessu hafi verið stillt í hóf í sinni tíð. Hvað eru nú þessar svokölluðu snattferðir? Ég hefi áður nefnt það dæmi, þegar eitt varðskipanna var látið flytja sjómenn norðan frá Ísafirði hingað suður í verstöð. Var það snattferð? Eða þá hitt, þegar Hinrik læknir Erlendsson í Hornafirði datt og slasaðist og Óðinn var látinn flytja hann hingað suður til Reykjavíkur, svo að hann gæti notið hér læknishjálpar, því að vitanlega var engum lækni til að dreifa í Hornafirði, þegar hann var sjálfur veikur. Hinrik liggur nú á spítalanum í Hafnarfirði. Að meta, hvað sé rétt að gera og hvað rangt í slíkum tilfellum sem þessum — það verður hver að gera fyrir sig. Það er ekki víst, að hv. 3. landsk. hefði gert hið sama sem ég gerði í þessum dæmum. En ég mundi gera það aftur, ef svo bæri undir.

Þá skal ég nefna það dæmið, þegar núverandi stj. lét eitt varðskipanna flytja mann austur á Seyðisfjörð til þess að endurskoða útibú Íslandsbanka þar. Við rannsókn þess manns komst það fyrst upp, hversu stjórn þess útibús hafði verið háttað á undanförnum árum. Þar hafði einum manni verið lánað 800 þús. kr. á tveim árum, ofan á milljónaskuld, manni, sem fyrirsjáanlegt var, að ekkert ætti til að borga með. Það er skemmtilegt að meta það, hvers virði það hefði verið fyrir þjóðina að fá vitneskju um þetta í tíma, til þess að geta tekið í taumana. Skyldi það ekki hafa borgað sig að senda Þór eða Óðin með mann til Seyðisfjarðar til þess að rannsaka útibúið þar fyrir tveim árum, svo að þá strax hefði verið hægt að grípa inn í sukkið. En ég skal ekki fara frekar út í þetta mál nú. Ég býst við, að mér gefist tækifæri til þess síðar.

Á meðan hv. 3. landsk. þm. var ráðh., lét hann sér í léttu rúmi liggja allt svindlið, sem sýslumaðurinn á Patreksfirði drýgði. Þar var „allt í lagi“, þó að yfir 100 þús. kr. hefðu farið í súginn. Ég lét fara fram rannsókn á embættisrekstri þessa sýslumanns; hann var settur af og neitaði að fara. Síðan var mál höfðað gegn honum, og þurftu varðskipin að fara margar ferðir vegna þeirra málaferla. En hér var líka um að ræða sæmd þjóðarinnar, auk stórfjár fyrir landssjóð. Ég held, að það gæti farið svo, að hv. 3. landsk. hefði minni ánægju af sinni tiltölulega ódýru endurskoðun heldur en ég af minni, þegar öll kurl koma til grafar, jafnvel þó að varðskipin hafi farið fleiri ferðir vegna minnar endurskoðunar en hans.

Hv. 3. landsk. vildi verja mótstöðu sína og síns flokks gegn skeytaskoðuninni. Hann heldur því fram, að stj. geti hindrað misnotkun loftskeytanna í þágu ólöglegra veiða. Ég held hinu fram, að stj. geti þetta ekki, og því hefi ég borið fram frv., sem gerir stj. það kleift að hafa eftirlit með þessu. Ég vona, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi þrátt fyrir mótstöðu þeirra, sem eiga flesta togarana. Virðist mótstaða einmitt þeirra manna benda til þess, að þeir séu hræddir við eftirlitið með skeytunum. En því notaði hv. 3. landsk. ekki sjálfur þessa heimild, sem hann er að tala um, á meðan hann var ráðh.? Eða er honum ekki eins annt um eftirlitið og hann lætur? Það er ekki nema tvennt til: Annaðhvort var sú stj., sem hv. 3. landsk. átti sæti í, svo hlutdræg og hrædd við togarafélögin, að hún hvorki vildi né þorði að nota þessa heimild, eða þá svo duglaus og skeytingarlaus, að hún gerði það ekki, þó að hún þyrði það.

Hv. 3. landsk. vill láta setja rannsóknarnefnd á mig fyrir misnotkun strandvarnarskipanna. Minnist hann þess, þegar ég og mínir flokksbr. vildum láta rannsaka hag Íslandsbanka 1923, og hann barðist af mestum dugnaði á móti því? Hv. 3. landsk. ætti að rannsaka sinn feril, áður en hann kemur fram með að skipa rannsóknarnefnd á aðra, og athuga, hverjar afleiðingar það hafði, að hann hélt sínu striki 1923. Og engum manni ferst það verr en einmitt hv. 3. landsk. að vera að bera mér það á brýn, að ég láti mig litlu skipta, þó að landhelgisgæzlan fari í handaskolum, því að hann og hans flokkur hefir frá því fyrsta barizt á móti þeim ráðum, sem ein duga til að koma strandvörnunum í viðunandi horf. Ég gæti trúað, að Alþingi sæi enga ástæðu til að fara að skipa slíka rannsóknarnefnd og hv. 3. landsk. fer fram á, ekki sízt þar sem sú ósk kemur frá manni, sem átti sæti í þeirri stj., sem gerði allt, sem hún gat, til að ónýta landhelgisgæzluna. Oddvitinn í Ólafsvík hefir sagt mér, að strax og Ægir leggi af stað héðan úr Reykjavík séu togararnir allir á brott. Hver símar? Ekki er það símað frá Englandi, heldur héðan úr Reykjavík, enda sagði oddvitinn mér, að alltaf væri helmingur þeirra togara, sem í landhelgi væru, íslenzkir.