15.03.1930
Efri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (2833)

34. mál, landhelgisgæsla

Frsm. meiri hl. (Halldór Steinsson):

Sjútvn. hefir ekki getað fylgzt að í þessu máli. Meiri hl. hennar, hv. þm. Ak. og ég, leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Við lítum svo á, að nauðsynlegt sé að auka landhelgisgæzluna með því að bæta við nýju skipi. Það má auðvitað segja, að þörfin á aukinni gæzlu sé mismunandi brýn á ýmsum stöðum umhverfis landið og að sumstaðar mætti e. t. v. bæta úr henni með því að haga á hagkvæmari hátt en verið hefir landhelgisgæzlu þeirra varðskipa, sem þegar eru til, og með því að nota varðbáta, t. d. á Faxaflóa og Breiðafirði. En þó sumstaðar hagi svo til, verður þetta ekki sagt um alla þá staði, sem bættrar landhelgisgæzlu þarfnast, eins og t. d. Vestmannaeyjar. Þar er ekki hægt að komast hjá því að hafa sérstakt skip yfir vetrarvertíðina. En ef annað skipið, sem nú er til, ætti að vera staðbundið við Vestmannaeyjar til lengri tíma, þá liggur í augum uppi, að ekki er hægt að gæta landhelginnar á viðunandi hátt alstaðar annarsstaðar með hinu skipinu einu. Með tilliti til Vestmannaeyja er því þörfin fyrir nýtt strandvarnarskip mjög aðkallandi. Og mér finnst, að meiri hl. þingsins hafi bundið sig þessu máli með því að samþykkja þáltill., sem borin var fram í Nd. um það, að hafa skyldi fullnægjandi skip við Vestmannaeyjar yfir vertíðina.

Annað, sem ég legg mikla áherzlu á, er það, að hið nýja strandvarnarskip gæti haft á hendi fiskirannsóknir kringum landið suma tíma ársins. Það er ekki vansalaust fyrir þjóð, sem lifir að eins miklu leyti á fiskiveiðum og við Íslendingar, að láta slíkar rannsóknir, sem eru eitt af stærstu skilyrðum fyrir framförum sjávarútvegsins, algerlega undir höfuð leggjast.

Þegar rætt er um að auka landhelgisgæzlu, eru venjulega ekki bornar fram aðrar mótbárur gegn því en sú, hvað kostnaðurinn við það sé mikill. Þetta er eðlilegt, því kostnaðurinn við strandvarnirnar er afarmikill, ef þær eiga að vera í góðu lagi, og auðvitað eftir því meiri, sem þær eru betri. En það má samt ekki einblína á kostnaðarhliðina; það er varið stórfé úr ríkissjóði til svo ótalmargs, sem ekki gefur af sér neinar beinar tekjur til ríkissjóðs aftur. Má t. d. nefna samgöngubæturnar og fleira, sem nauðsynlegt er til að halda uppi velmegun þegnanna, þó það gefi ekki af sér beinar tekjur. Ég er sannfærður um, að góð landhelgisgæzla eykur óbeinlínis svo mikið tekjur þeirra, er sjávarútveginn stunda, og þá um leið tekjur ríkissjóðs, að það er mesti búhnykkur fyrir ríkið að halda henni uppi. En eins og við bendum á í nál., fyndist mér ekki ósanngjarnt, að sjávarútvegurinn leggi tiltölulega meira fram til strandvarnanna heldur en aðrir atvinnuvegir landsmanna, ef ríkissjóði yrði kostnaðurinn af þeim um megn, með tilliti til annara útgjalda. Hv. meðnm. minn í meiri hl. mun vilja ganga lengra í þessu efni en ég; eftir hans skoðun á sjávarútvegurinn að bera mestan eða allan kostnaðinn af strandvörnunum. Hygg ég stafa af því, að hann hefir skrifað undir nál. með fyrirvara.

Aftur á móti heldur hv. minni hl. fram, að það sé ekki komin full reynd á landhelgisvarnir okkar, og því beri ekki að leggja út í ný skipakaup fyrr en stj. sé búin að láta rannsaka, hvernig þeim verði haganlegast fyrir komið. Ég get ekki tekið undir þetta. Ég álít, að ekki séu tök á að dæma eftir neinni rannsókn í eitt skipti fyrir öll um það, hvernig haga á landhelgisgæzlunni í framtíðinni, því þetta á við eitt árið og annað hitt. Þess vegna verður að fela ríkisstj. að stjórna strandvörnunum eins og haganlegast er í hvert skipti. Ætti hver stj. að geta ráðið sæmilega fram úr þeim vanda, og er því rannsóknin óþörf. Hinsvegar er öllum ofvaxið að láta landhelgisgæzluna fara vel úr hendi, ef ekki er nægur skipakostur til. Þess vegna leggur meiri hl. n. til, að frv. sé samþ. óbreytt. Ætti landhelgisgæzlan að komast í sæmilega gott horf, ef það er gert.