04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (2846)

34. mál, landhelgisgæsla

Pétur Ottesen:

Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og flutt þar af hv. þm. Snæf. Um nauðsyn þessa máls ætla ég ekki að þurfi orðum að eyða. Menn eru væntanlega á einu máli um það, að brýn nauðsyn beri til þess að fylla það skarð, sem varð um áramótin í strandgæzluflota okkar. Um þetta skip, sem hér er gert ráð fyrir að kaupa, er það ætlun manna, að það þurfi ekki að vera eins stórt og önnur skip flotans, t. d. Ægir, en sterkbyggt og hraðskreitt. Ennfremur þarf það að vera útbúið með öllum nauðsynlegum björgunartækjum og tilfæringum til þess að draga skip af grunni, ef nauðsyn krefur. Að lokum virðist einsætt að útbúa skip þetta með tækjum til fiskirannsókna, enda mun hv. flm. hafa bent á nauðsyn þess við flutning málsins í hv. Ed. Þau tæki, sem nauðsynlega þyrfti að hafa, er fyrst og fremst botnvörpuútbúnaður og vinda til þess að draga upp vörpuna. Auk þess þyrfti góðan dýptarmæli og önnur tæki, sem nauðsynleg eru.

Hér á landi eru nú 2 fiskifræðingar, sem gætu staðið fyrir fiskirannsóknum. Má þar fyrst nefna hinn alkunna fiskifræðing Bjarna Sæmundsson. Auk þess hefir Fiskifélag Íslands ráðið í sína þjónustu kunnáttumann á þessu sviði, Árna Friðriksson að nafni.

Það er ekki vafi, að slíkar rannsóknir hafa mikla þýðingu fyrir fiskiveiðar okkar. Þær auka þekkingu manna á lífi og eðli nytjafiska, og jafnframt má þannig safna gögnum um það, hvernig fiskurinn hagar göngu sinni meðfram ströndum landsins. Það er nú orðið alkunnugt, að slík rannsókn er nauðsynlegur liður í baráttu okkar fyrir því að fá landhelgina rýmkaða, og þarf að leggja fulla áherzlu á, að skipið sé útbúið slíkum tækjum. Slíkar rannsóknir mundu fara fram 3–4 sinnum á ári, 2–3 vikur í senn, og ættu vel að geta samrýmzt landhelgisgæzlunni og þeirri björgunarstarfsemi, sem þetta skip á að hafa á hendi. Landhelgisgæzlan og önnur þau störf, sem skipinu er ætlað að inna af hendi, eru svo þýðingarmikil fyrir landsmenn, að allt kapp verður að leggja á að koma þessu í framkvæmd.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, á landhelgissjóður nú um 1 millj. kr., en kunnugir menn segja, að skip með nauðsynlegum áhöldum megi fá fyrir helming þeirrar upphæðar.

Loks ætla ég að gera að till. minni, að máli þessu verði vísað til sjútvn. og megi þar fá skjóta og góða afgreiðslu, svo að hægt verði að afgreiða það sem lög frá þessu þingi.