12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (2856)

34. mál, landhelgisgæsla

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Í flestum landshlutum er algeng kvörtun um ófullkomna landhelgivörn, og þó er hún almennust í þeim landshlutum, sem fjarst liggja heimkynnum varðskipanna. Hefir því legið í lofti um nokkurn tíma að fjölga varðskipum, og allir vita, að ekki verður látið staðar numið nú, enda augljóst, að fullgild landhelgivörn fæst ekki með 2 skipum. En skiptar skoðanir eru um það, hve ört beri að framkvæma þessa skipasmíð til strandvarna og hvern útbúnað eigi að hafa um stærð skipanna og fleira í því sambandi.

Samt er þessum málum komið svo langt á veg, að vera mun orðið fullkomlega ákveðið, að jafnframt því að annast strandgæzlu eigi skipin að vera útbúin björgunartækjum, svo þau geti aðstoðað, er óhöpp bera að höndum á vetrarvertíð, þegar fjöldi skipa og báta er að veiðum. En eins og öllum er kunnugt, er vetrarvertíð stunduð að kalla má við ¾ af allri strandlengju landsins, og jafnvel ekki útilokað, að vetrarvertíðin nái yfir stærra svæði. En það verður ekki ætlazt til, ef skipin eiga jafnframt strandgæzlunni að hafa björgunarstarfsemi með höndum, að þau geti náð yfir allt þetta svæði á meðan þau eru aðeins 2, og sízt á meðan annað skipið er staðbundið, eins og verið hefir að undanförnu, því að þá er aðeins í skip eftir til þess að annast landhelgigæzluna á meginhluta svæðisins.

Út frá þessum forsendum og með það fyrir augum, að bráðlega verði útveguð fleiri skip, hefir niðurstaða meiri hl. sjútvn. orðið sú, að mæla með frv. En n. hyggur, að þetta þriðja skip mætti að ósekju vera nokkuð minna og ódýrara en þau tvö, sem fyrir eru, og gæti þó komið að fullu gagni.

Það hefir oft verið á það minnzt, að ástæða væri til að nota skip þessi á fleiri vegu en til strandgæzlu og björgunar. T. d. hefir verið gert ráð fyrir, að þau gætu haft fiskirannsóknir með höndum, ef sérfræðingur fengist, sem vinna vildi að slíku. Auk þess hefir verið talað um að láta þau annast strandmælingar. En þetta eru aukastörf, sem ætla má, að skipin geti fremur leyst af hendi, eftir því sem þau eru fleiri.

Um leið og ég mæli með þessu frv. þykir mér rétt að benda á það, sem að vísu er mörgum áður kunnugt, en ef til vill ekki jafnmörgum sem skyldi, að á ýmsum stöðum, t. d. á Austurlandi, hefir strandvörnin verið undanfarið mjög lítil og ófullnægjandi. Með síðasta pósti fékk ég tvö bréf frá kjósendum mínum, þar sem ég er beðinn að tilkynna hæstv. stj., að um alllangan tíma hafi erlendir togarar læðzt ljóslaust inn á víkur og voga og skafið um botninn uppi undir landsteinum í fullkomnu næði, því að ekki hafa varðskipin látið sjá sig á þeim slóðum. Þetta er að vísu ekkert nýmæli og hefir komið fyrir áður oft og mörgum sinnum austur þar, enda eðlilegt, og það af þeirri einföldu ástæðu, að skipin komast ekki yfir að líta eftir á allri strandlengjunni.

En sem sagt, þó að nokkrir erfiðleikar séu á því að koma þriðja skipinu á flot og gera það út, virðist þó meiri hl. sjútvn. sjálfsagt að vinna að því svo fljótt sem ástæður og efni leyfa, og mælir því eindregið með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.