12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2133 í B-deild Alþingistíðinda. (2857)

34. mál, landhelgisgæsla

Pétur Ottesen:

Ég vil leyfa mér að þakka hv. meiri hl. sjútvn. fyrir skjóta afgreiðslu málsins og góðar undirtektir.

Það er vitanlega öllum hv. þdm. kunnugt, að hér er um mjög mikið nauðsynjamál að ræða, og því mikið í húfi, enda má ekki láta undir höfuð leggjast að fylla það skarð, sem höggið var í okkar smáa strandvarnarskipaflota með strandi Þórs í vetur. Eins og þá var ástatt var vitanlega langt frá, að strandgæzlan væri í æskilegu lagi, enda var áður farið að tala um að leita fyrsta færis um að fá nýtt skip í staðinn fyrir Þór, sem þótti gamall og ekki fullnægjandi. Því meiri ástæða er til þess nú að fá bráðlega skip, þar sem Þór er úr sögunni, eins og fyrr er sagt.

Í nál. er vikið að þrennskonar starfsemi, sem skipi þessu er ætlað að hafa með höndum jafnframt strandgæzlunni, en það er björgunarstarfsemi, strandmælingar og hafrannsóknir. En svo er 4. atriðið, sem hv. frsm. meiri hl. minntist, en það eru fiskirannsóknir. Á þessu var byrjað með Þór og komið nokkurt lag á það, enda tel ég bráðnauðsynlegt, að slíkum rannsóknum sé haldið áfram. Og af þeim aukastörfum, sem talin eru, legg ég ekki hvað minnsta áherzlu á, að skipið sé svo útbúið, að það geti haft fiskirannsóknir með höndum.

Ég álít engan vafa á því leika, að nauðsyn beri til að samþ. frv. þetta og að hæstv. stj. geri þegar ráðstafnir til þess, að smíði þessa skips verði hafin. Í landhelgissjóði mun nú vera um ein millj. króna, og þar sem allir eru sammála um. að þetta skip þurfi ekki að verða dýrt og nóg fé fyrir hendi til að afla skipsins, þá vænti ég, að hv. d. samþ. frv. eins og það liggur fyrir og að hæstv. stj. taki síðan föstum tökum á málinu.