12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (2859)

34. mál, landhelgisgæsla

Hákon Kristófersson:

Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja, og þá jafnframt láta í ljós ánægju mína yfir þeim góða samhug, sem þetta mál virðist eiga hér í hv. deild.

En ég vildi geta þess, af því að málið er stórvægilegt, þá hefði mér þótt vænt um að heyra álit hæstv. stj. um það, en sérstaklega þó þess hæstv. ráðh. sem það heyrir undir, ef hann mætti, sökum annríkis í sinni deild, láta ljós sitt skína örlitla stund í þessari hv. deild.

Annars vildi ég út af orðum hv. 4. þm. Reykv. í lok ræðu hans mega segja það, að ef kaupa á skipið, þá skil ég ekki, að þurfi allan tímann til nýárs til þess að gera það. Og ef hv. þdm. geta fallizt á nauðsyn þessa máls, þá vil ég vinda bráðan bug að því, að skipið verði keypt.

Ég sé, að hæstv. dómsmrh. er kominn og gleð mig fyrirfram við að heyra, hvað hann hefir að segja um þetta merkismál, sem hlýtur að vera áhugamál hans ekki síður en annara.