12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

34. mál, landhelgisgæsla

Jóhann Jósefsson:

Ég hafði búizt við, að hæstv. dómsmrh. yrði þegar við tilmælum hv. þm. Barð. um að láta uppi hug sinn um kaup á þessu nýja strandvarnarskipi. En úr því svo er ekki, og ég get vitanlega ekki svarað fyrir hæstv. ráðh., þá vildi ég nota tækifærið til þess að játa í ljós ánægju mína yfir þeim skilningi, sem hv. þdm. hafa sýnt á þessu máli, og hve vel þeir hafa tekið í það. Hv. frsm. meiri hl. og aðrir hv. ræðumenn, sem talað hafa, eru sammála um, að þetta nýja skip eigi að vera þannig útbúið, að það geti fullnægt strandvörnum og jafnframt innt af hendi fleiri störf, sem nauðsynleg eru.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist á, að skip þetta þyrfti að kaupa svo fljótt, að það gæti hafið starfsemi sína við Vestmannaeyjar með næstu vertíð. Þótti mér vænt um að heyra það og vildi sérstaklega undirstrika, að skipið þyrfti að hafa fyrir aðalstarf björgunar- og eftirlitsstarfið við Vestmannaeyjar.

Ennfremur verður að telja afarnauðsynlegt, að leitað sé að nýjum fiskimiðum. Það er ekki langt síðan Halamiðin fundust, eitthvað um 7 eða 8 ár, ef ég man rétt, en öllum er kunnugt, að mikill fiskur hefir komið þaðan.

Nú hefi ég heyrt, að Guðmundur Jónsson, skipstjóri á Skallagrími, hafi nýlega orðið var við nýjan fiskibanka, en af eðlilegum ástæðum gat hann ekki gefið sér tíma til þess að rannsaka legu bankans, sem heldur ekki er að vænta, þar sem togaraskipstjórinn fyrst og fremst verður að hugsa um aflann. En einmitt þetta er verkefni skips eins og þessa, sem hér er farið fram á að kaupa: að rannsaka mið og fiskigöngur jafnframt landhelgisgæzlunni.

Þess vegna virðist það vera efst í huga manna, að þetta sé botnvörpungur, því að það getur fullnægt öllum störfum í þarfir strandgæzlu og björgunar, þótt það hafi botnvörpungaútbúnað um borð. Sá útbúnaður er líka nauðsynlegur við fiskirannsóknir.

Það er eðlilegt, að menn horfi nokkuð mikið á, hvað útgerð á þessum skipum kostar, og þá er náttúrlega réttast með tilliti til framtíðarinnar að hafa allan hugann á því, að landið hafi sem bezt gagn af skipunum. Hér hefir verið bent á ýms verkefni, landhelgisgæzlu, björgun á lífi manna, veiðarfæragæzlu, hafrannsóknir, sjómælingar og leit að nýjum fiskimiðum. Þessi verkefni eru öll ákaflega mikilsverð, og því betur sem þau eru rækt, því betri má búast við, að afkoma sjávarútvegsins verði.

Ég býst við, að hæstv. dómsmrh. sé nokkurnveginn sammála þeim, sem hér hafa talað, um að hafa skipið „praktískt“ útbúið, og vænti ég þess, eins og hv. þm. Barð., að heyra álit hans um það.