20.02.1930
Neðri deild: 32. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (2872)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég get tekið undir með hæstv. forsrh., að það er í raun og veru þýðingarlaust að deila verulega um málið við þessa umr. En þó get ég ekki látið það framhjá mér fara að lýsa með nokkrum orðum, hvern hug ég ber til þessa frv. yfirleitt. Eins og drepið var á, hafa á síðustu þingum orðið deilur allmiklar um það, hvernig þessu máli skyldi skipað. Tveir aðalflokkar þingsins runnu saman í eitt og sættu sig við það frv., sem þá fór út úr hv. d., og af sumum var kallað frv. til laga um dvergbanka. Og mig undrar því ekki, þó að fulltrúar þessara flokka, sem hér hafa talað, taki þessu frv. fremur vinsamlega — eða jafnvel með opnum örmum. Því að það er lítill munur á því frv., sem sjútvn. skilaði á síðasta þingi, og frv., sem hér liggur fyrir og mér skilst vera frá hæstv. stj. komið. Mér og mínum flokksmönnum eru mikil vonbrigði, hvernig frv. þetta lítur út. Við lögðum í fyrsta lagi mikla áherzlu á það, að framlag það, sem sjóðnum var ætlað, væri allt of lítið til þess að fullnægja þeim kröfum sjávarútvegsins, sem hann nú og í framtíðinni hlýtur að gera. Nú er mjög lítið úr þessu atriði bætt, því að í staðinn fyrir 60 þús. króna framlag, sem gert er ráð fyrir í till. meiri hl. í fyrra, má reikna, að nú sé það — ef jafnað er niður á 10 ár — 100 þús. kr. á ári. En auk þessara 60 þús. króna á ári, sem meiri hl. lagði til í fyrra, átti sjóðnum að leggjast til 30 þús. kr. á ári um óákveðið árabil. Þegar því allt kemur til alls, þá sé ég mjög lítinn mun á þeim till., sem í þessu frv. felast, og því í fyrra. En þar þótti okkur jafnaðarmönnum of skammt farið. Þetta ½ millj. framlag, sem ríkissjóður á að leggja til rekstrarlánadeildarinnar, er nákvæmlega það sama og meiri hl. n. lagði til í fyrra. Og einmitt með tilliti til þessa lögðum við mjög mikla áherzlu á og færðum skýr rök fyrir, hve óskaplega lítil fjárhæð ½ millj. er handa sjávarútveginum, þó að stærsti hluti hans, þ. e. togaraútvegurinn, sé undanskilinn.

Ég skal geta þess, að það er gert ráð fyrir, að sjóðurinn öðlist tekjur, þó að það sé ekki sjáanlegt eins og málið liggur fyrir. Þessar tekjur liggja í ¼% skatti af útfluttum afurðum. Í grg. frv. er gert ráð fyrir, að þetta nemi allt að 100 þús. kr. á ári. Ef þetta nær fram að ganga, er það nýtt tillag til aukningar sjóðsins. Ég skal ekki fara út í það að sinni, hvort rétt sé að skattleggja sjávarútveginn á þennan hátt.

Um stærð skipa, sem lána má út á, er nokkuð breytt frá till. n. Ég benti á það í fyrra, að það er mjög hæpið að takmarka ábyrgðina við einhverja stærð skipanna. Ég vil t. d. benda á, að lítil gufuskip, sem eru nú þau skip, sem menn byggja mest trú sína á hér sunnanlands, þau eru algerlega útilokuð frá styrk frá slíkum sjóði, er hér ræðir um.

Þá kem ég að því atriði, sem mest er um deilt, rétti sjómanna til að hafa tryggingu fyrir kaupgreiðslu. Ég vil þá þakka hæstv. atvmrh. fyrir það, að hann hefir tekið til greina till. okkar um þetta efni og leitað sér fyllri fræðslu um það mál en ég gat í té látið í fyrra. Ég benti þá á próf. Ólaf Lárusson sem manna fróðastan um þær reglur, er gilda hjá öðrum þjóðum á þessu sviði, og sem mér nú skildist, að hefði nú staðfest álit sitt fyrir hæstv. stj. En hér fylgir nokkur böggull skammrifi, því að í 6. gr. er reynt að fara inn á sérstaka leið, sem mér virðist mjög varhugaverð. Það er í raun og veru verið að lögfesta það, með hverskonar kjörum menn eiga að ráða sig á þau skip, sem eiga að njóta réttinda úr sjóðnum. Það er ekki hægt að skilja ákvæði um þetta á annan veg en að hreint og beint sé ætlazt til, að sjómenn skuli skilyrðislaust ráðnir upp á hlut. Ég vil beina því til hv. flm., hvort þeir álíti, að þá sé sjóveð ekki nauðsynlegt. Ég býst þó við, að þeir líti svo á, að til þess megi grípa. Og ég vil benda á, að sjóveð hefir orðið að nota fyrir vangoldinn aflahlut eins og fyrir vangoldið kaup. Og ef sú er meining hv. flm., að með því að sjómenn ráðist upp á hlut sé hægt að tryggja lánveitingu, þá getur það verið mjög hæpið. Ég vil mjög eindregið leggja á móti þeirri hugsun, að það megi á nokkurn hátt hefta frjálsræði manna um það, með hvaða kjörum þeir ráða sig á skip. Við höfum svo þráfaldlega rekið okkur á það, að þótt við höfum bent sjómönnum á ráðningu upp á hlut, hafa þeir fremur óskað eftir mánaðarkaupi eða aflaverðlaunum. Það getur því ekki komið til mála að svipta þá sjálfsákvörðunarrétti í þessu efni. Ennfremur skal ég taka það fram, að þótt hásetar séu ráðnir upp á hlut, þá er altítt, að vélamenn, matsveinar og ýmsir aðrir starfmenn séu ráðnir upp á kaup. Verður því erfitt að samrýma þetta. Ég býst við, að með góðum vilja væri hægt að lagfæra bæði þetta og ýmislegt annað, þegar málið kemur til n.

Ýmislegt fleira mætti minnast á, sem ég læt þó liggja að sinni, nema sérstakt tilefni gefist. Ég verð þó aðeins að drepa á það, að við jafnaðarmenn höfum lagt fram frv. í sambandi við annað mál, nefnilega um útvegsbankann. Honum er auðvitað ætlað að taka við, ef Íslandsbanki verður ekki reistur við. Ég er einn af þeim mönnum, sem greiddu atkv. með lögunum um Búnaðarbankann, sem hefir fleiri millj. til umráða. Þess vegna álítum við jafnaðarmenn, að við eigum fulla kröfu á því, að sjávarútvegurinn sé studdur hlutfallslega með peningastofnun eins og landbúnaðurinn er nú. En þetta frv. er ekki nema lítið spor í þá átt, og algerlega ófullnægjandi, að mínum dómi.