03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (2884)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Brtt. á þskj. 402 hafa ekki komið fram fyrr en á þessari stundu, og því er erfiðara að átta sig á þeim, enda hafa þær ekki verið ræddar í n. Eftir 1. brtt. myndi verða tiltölulega stórfelld breyt. á rekstri Fiskveiðasjóðs, og hún mun, ef samþ. verður, tryggja sjóðinn fjárhagslega. Um hana er aðeins gott að segja, og munu allir vinir þessa máls gleðjast yfir samþykkt hennar.

Nokkuð öðru máli er að gegna um 2. brtt., því að hún fer fram á hærri styrkveitingu til bátakaupa en líklegt er, að takast megi að veita almennt. En þótt ekki séu nein skýr takmörk fyrir því, hvaða fleytur má kalla báta og hverjar skip, þá hygg ég þó, að vanalega sé sú fleyta, sem er undir 25 smál., kölluð bátur, en þær skip, sem stærri eru. Eins og ég lýsti yfir við 2. umr. þessa máls, virðist mér þetta geta haft þær afleiðingar í för með sér, að sjóðurinn verði uppétinn af stærri skipunum, en hin minni verði út undan. Ég verð því að segja, að ég hygg, að sjóðurinn nái ekki því marki, sem honum er ætlað að ná, ef þetta verður samþ.

Um 3. brtt. er það að segja, að ef 2. brtt. verður samþ., þá er hún eðlileg afleiðing hennar, og verður því að samþykkjast líka. Að vísu mætti samþ. b-liðinn, þótt a yrði felldur, því að hann lýtur að hækkuðu láni handa verksmiðjum. Ég verð því að segja, að ég eindregið fylgi 1. brtt., en tel báðar hinar athugaverðar.