20.02.1930
Neðri deild: 32. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (2917)

133. mál, fiskveiðasjóðsgjald

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Þetta frv. er svo nátengt því frv., sem var næst á undan á dagskrá (frv. um Fiskveiðasjóð), að í raun og veru eru þau óaðgreinanleg.

Ég tók eftir því við umr. um næsta mál á undan, að áætlanir voru gerðar af tveimur hv. ræðumönnum um það, hvað miklu mundi nema þetta fiskveiðasjóðsgjald, sem hér er gert ráð fyrir að lögfesta, og gizkað á 100 þús. kr. á ári, eða því sem næst. (JJós: Það er í greinargerðinni). Eftir útflutningi síðustu ára ætti að vera um að ræða sem næst 150 þús. kr. á ári, þegar miðað er við 60 millj. kr. útflutning af sjávarafurðum og ¼%.

Í raun og veru ætti slíkt frv. og þetta að ganga til fjhn. En vegna þess, hve nátengt það er frv. á undan, vil ég gera að till. minni, að því verði vísað til sjútvn.

Þar sem þetta er svo einfalt mál, tel ég ástæðulaust að hafa langar umr. um það nú við 1. umr. En ég veit, að ýmsum þykir nokkuð djúpt gripið niður í vasa gjaldenda með því að bæta ¼% ofan á útflutningsgjaldið, sem fyrir er. Það er vitanlegt, að stofnun sú, sem hér er hugsað fyrir, getur ekki af engu orðið til. Einhverjir verða að fórna, einhverstaðar verður að leita fyrir sér um það fé, sem óhjákvæmilegt er að veita sjóðnum. Og ég sé ekki, að auðveldlega verði fundin einfaldari og eðlilegri leið en þessi. Ég hygg, satt að segja, að gjaldendur standi nokkurn veginn jafnréttir fyrir þessari kvöð, sem hækkar útflutningsgjaldið úr 1½% upp í 1¾%.

Fleira skal ég ekki ræða um þetta mál að sinni. Í n. mun verða tækifæri til að skoða það betur frá fjárhagslegri hlið, og sjálfsagt verður að skoða það í sambandi við frv. um Fiskveiðasjóð Íslands.