01.04.1930
Neðri deild: 68. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2184 í B-deild Alþingistíðinda. (2921)

133. mál, fiskveiðasjóðsgjald

Ólafur Thors:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, sem hnígur að því, að þó að ég og hv. þm. Vestm. höfum gengið inn á nýjan skatt á sjávarafurðum, þá er okkur það þó þvert um geð. En okkur var það ljóst, að mikil nauðsyn er fyrir stofnun fiskiveiðasjóðs, en hinsvegar yrði sá sjóður mjög veigalítill, ef þetta yrði ekki gert. Þörf smábátaútvegsins hefir knúð okkur til að fallast á það, að lagt yrði inn á þessa braut. En þó við gefum þetta eftir nú, þá viljum við leggja áherzlu á það, að við viljum ekkert fordæmi skapa með þessu og að við viljum ekki ganga lengra, á þessari braut. Þótt bætt yrði við þessa stofnun síðar, þá ætti ekki að þurfa að skattleggja sjávarútveginn sérstaklega fyrir því, enda ærinn skattþungi á hann lagður áður.