26.03.1930
Efri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (2944)

91. mál, gagnfræðaskóli

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [frh.]:

Ég ætla þessu næst að víkja að nokkrum einstökum ummælum úr ræðu hæstv. dómsmrh., sem ég hafði ritað hjá mér.

Hann talaði svo um brtt. mína, að með henni væri verið að bæta einhverjum kumbalda á frv., taka Reykjavík út úr og skapa hlunnindi fyrir Reykjavík, sem ekki ætti að hafa sérstök hlunnindi og ekki meiri rétt en aðrir.

Þetta er allt saman hugarburður. 18. gr. í hans eigin frv. er ekkert annað en sérákvæði fyrir Reykjavík, og það, sem ég fer fram á, er ekkert annað en að þeim sérákvæðum sé hagað á skynsamlegri hátt en ráðh. hefir fundið upp á. Það er með þessari brtt. ekki farið fram á neitt annað fyrir Reykjavík af ríkisins hálfu heldur en það sama, sem felst í stjfrv., sem sé 90 þús. kr. framlag til byggingar. Og ég sé ekki, að það sé neinn sérréttur fyrir Reykjavík, þótt stungið sé upp á því, að þessum 90 þús. kr. sé varið á skynsamlegan hátt, en ekki óskynsamlegan. Ekki getur það orðið neinn kumbaldi á frv.

Annars verð ég að segja, að þótt lög um alþýðufræðslu í Reykjavík fengju inn í sig einhver sérákvæði og að einhverju leyti annað snið en í öðrum kaupstöðum, þá væri það ekkert annað en eðlileg afleiðing af því, hvað Reykjavík er miklu stærri. Það er ekkert annað en ímyndun ein, að fari nokkuð sérstaklega vel á því að teygja undir alveg samstæða löggjöf staði, sem svo ólíkt stendur á um sent t. d. Reykjavík og Siglufjörð eða Norðfjörð. Það er náttúrlega bara hugarburður, að af því að eitthvað hæfi fyrir Norðfjörð, megi ómögulega hafa það öðruvísi fyrir Reykjavík.

Þá gerði hæstv. ráðh. ráð fyrir, að hér væri farið fram á, að ríkið tæki að sér verzlunarfræðslu og iðnfræðslu, og ef svo væri gert, ætti að gera það með heildarlöggjöf. Hann viðurkenndi, að iðnfræðslan mundi renna saman við gagnfræðamenntun, og gat þess, að þegar hefði verið stigið slíkt spor í Hafnarfirði. En nú er ekki með minni brtt. farið fram á það; hún lætur afskiptalaust, hvort ríkið taki að sér verzlunarfræðslu og iðnfræðslu. Hitt get ég sagt hæstv. ráðh., að hann er líka kominn út á ímyndunarbraut, ef hann heldur, að með samstæðri löggjöf fyrir alla kaupstaði sé hægt að ákveða um slíka fræðslu, svo að í nokkru lagi sé. Það er að vísu svo, að frumfræðslan í þessum greinum þarf að vera hin sama í öllum þeim kaupstöðum, sem annars eru svo mannmargir, að þeir séu færir um að halda henni uppi. En það verður óhjákvæmilega að sjá fyrir aukinni framhaldsfræðslu, og ekki má búast við, að unnt sé að gera það í hverjum kaupstað, því að Reykjavík ein hefir aðstöðu og mannfjölda til þess að halda uppi þeim greinum. Það er því hugarburður og reykur, að hægt sé að setja heildarlöggjöf án þess að gera sérákvæði fyrir Reykjavík. En í minni brtt. er ekki farið fram á nein slík sérákvæði.

Hæstv. ráðh. talaði um það ranglæti að taka Reykjavík út úr. Þetta er hugarburður líka. Það getur aldrei orðið neitt ranglæti, meðan ekki er farið fram á annað en að í Reykjavík sé framkvæmdur sá hluti kennslunnar, sem ekki er kleift að halda uppi nema á einum stað í landinu. Liggur þetta í rauninni alveg utan við mínar till. og þetta frv.

Þá þótti mér skrítið, þegar ráðh. staðhæfði, að stj. bæri ekki skylda til þess að rannsaka þörfina á verklegri fræðslu. Það er fáránlegt að heyra slíkt af munni þessa ráðh., þar sem nú stendur svo á, að hann er fyrsti sérstaklegi skólamaðurinn, sem á sæti hér sem kennslumálaráðh. Hann er ekki ennþá búinn að skilja þarfir þjóðarinnar á sviði kennslumálanna betur en svo, að hann telur sér og stjórnarskrifstofunni óviðkomandi að rannsaka þarfirnar á verklegri fræðslu, sem getur ekki þýtt annað en þá sérstaklegu fræðslu, sem hæfir hverri atvinnugrein. Ég þykist ekki þurfa að hrekja það með öðru en benda á þetta.

Síðan hefir hæstv. ráðh. líklega fundið, að veila var í þessu, því þá fór hann að bera fyrir sig tómlæti bæjarstjórnar Reykjavíkur. Hafði hann aðeins eina ástæðu, að bæjarstj. hefði fellt á síðastl. vetri fjárveitingu til skóla með bráðabirgða-ungmennafræðslu, sem hér hefir starfað í tvö ár.

Hann vildi í ræðu sinni eins og í grg. kenna um þetta einungis trassaskap og skilningsskorti hjá bæjarstj. og óvild hennar gegn því að auka fræðsluna í bænum. Hann segist svo sem þekkja bæjarstj. Reykjavíkur, og það sé ekki sér að kenna, að hún hafi ekki viljað láta fé til þessa skóla. En sannleikurinn er sá, að þetta ósamkomulag milli ráðh. og meiri hl. bæjarstj. stafar alls ekki af áhugaleysi hennar fyrir menntamálum höfuðstaðarins, heldur af því, að ráðh. er sérstaklega stirður viðskiptis við bæjarstj., þar sem hann ber kala til hennar og bæjarins, eins og stöðugt kemur fram, og svo vegna hins, að till. hans í skólamálum Reykjavíkur leggja ekki þann byrjunargrundvöll, sem bæjarbúar geta sætt sig við. Og því er eðlileg afstaða bæjarstj., að banda frá sér till. hans um að tildra upp undirstöðu, sem verður að ryðja burtu síðar og ekki er í samræmi við vilja bæjarbúa, sem heldur vilja bíða og þrauka, í von um að fá skilningsbetri ráðh. heldur en nú er, eða að með vaxandi aldri verði hægt að koma inn hjá honum skilningi á skólaþörfum bæjarbúa. Sökin er því öll hæstv. ráðh. megin.

Þegar hann finnur það að brtt. minni, að ég hefi orðað hana á venjulegan hátt um að heimila að leggja fé úr ríkissjóði gegn framlögum annarsstaðar að, og segir, að ég sé þar með að fleyga málið og stofna til þess, að ekkert verði aðhafzt, þá skal ég aðeins svara með því að bjóða honum það, að ef hann vill fela mér meðferð málsins í einn mánuð, skal ég vera búinn að fá samþykki hlutaðeiganda til að koma upp þeim myndarlega skóla, sem Reykvíkingar þrá, ef það strandar þá ekki á hæstv. ráðh. En hann getur það ekki, því að framkoma hans hefir aldrei verið þannig, að hægt væri að bera nokkurt traust til hans í þessa átt. Öllum bæjarbúum er það líka ljóst, að þessi byrjunarbygging yfir ungmennaskólann, eða Ingimarsskólann svonefnda, og sem ráðh. þakkar sér, er svo ófullnægjandi úrlausn á fræðsluþörf bæjarins, að þeim má á sama standa, hvort á næstu árum verður haldið lengra eða skemmra áfram á þeim grundvelli. Það þarf ekki annað en líta yfir þær upplýsingar, sem ég hefi gefið í mínu nál., til að sjá, að það skiptir minnstu, hvorum megin hryggjar þetta liggur. Þessi skóli gerir ekki annað en að veita nokkrum unglingum samskonar fræðslu og veitt er í 7. og 8. bekk í barnaskólanum, en sem eru orðnir of gamlir til þess að njóta fræðslu þar. Ég vil ekki segja, að skólinn sé þýðingarlaus, en hann er svo örlítill partur af því, sem bærinn þarfnast, að engin von er til þess, að meiri hl. bæjarstj. sætti sig við að byggja ofan á þann mjög svo mjóa stöpul, sem þar er lagður undir.

Nú á að ráða bót á þessum mistökum ráðh. með því að orða 18. gr. frv. þannig, að bæjarstj. Reykjavíkur verði lögþvinguð til þess að leggja fraan fé til þessa ómyndarlega skóla, sem ráðh. vill láta Reykvíkingum nægja. Ég mun ekkert fullyrða um það, hvernig sá hildarleikur fer, ef í það verður ráðizt, en tek kröftuglega undir með hv. 6. landsk., að með dálítilli lipurð væri hægt að ráða fram úr þessu, en ég hefi enga trú á, að sú lipurð sé til í kennslumálaráðuneytinu eins og nú stendur.

Ég er í raun og veru áður búinn að svara þeim ummælum, sem ég henti á lofti, að með brtt. væri verið að svíkja Verzlunar- og Iðnskólann inn á landið. Það væru nú engin sérleg svik við landið, þótt þessi kennsla væri umbætt. En brtt. felur ekkert slíkt í sér.

Hæstv. ráðh. fór því næst að hæla sér af afrekum sínum í menntamálum, eins og honum er títt, og minntist þá á einhverja lögun á kennslustörfum í Menntaskólanum. Ég held, að það sé einsdæmi um andlega fátækt hjá hæstv. ráðh., að þurfa að grípa til þess að skrifa hólgreinar um sig í blöðin fyrir að hann ætlaði að láta setja upp nokkra fatasnaga.

Þá taldi hæstv. ráðh. alveg rangt að hjálpa kaupmönnum til að koma sér upp skóla. Ég hefi vikið að því áður, hve hraparlegur misskilningur það er á þörfum þjóðarinnar að ímynda sér, að fræðsla um verzlunarmálefni hafi ekki þýðingu fyrir aðra en þá kaupmenn, sem uppi eru á þeim tíma, sem skólinn er haldinn.

Ég vildi vona, að orð mín orkuðu einhvers um að koma þeirri hugmynd inn hjá ráðh., að hann fer villur vegar, og vænti þess, að hann sýni vaxandi og batnandi ráðherramanndóm í því að snúa frá villu síns vegar og sjá, að landinu er eins nauðsynlegt eftir hæfi og getu að leggja fram fé til að eignast menntaða verzlunarstétt eins og að eignast aðrar stéttir vel menntaðar.

Ég hefi nú svarað því, sem hæstv. ráðh. sagði um upptalningu þessara skóla í Reykjavík. Hann getur ekki komizt hjá því, að hann hefir afneitað, að þessir skólar væru til. Reykvíkingar hafa auðvitað tekið við því litla, sem að þeim hefir verið rétt frá hinu opinbera, en mest hafa þeir sjálfir borið og bera uppi, aðallega með skólagjöldum nemenda.

En svo fór hæstv. ráðh. eins og til þess að hnekkja því, sem ég hafði sagt um þörf iðnaðarmannastéttarinnar, sem er fjölmennasta stéttin, og verzlunarstéttarinnar, sem er næstfjölmennust, að tala um, að aðrar stéttir væru fjölmennari, og nefndi húsmæður og ólærða verkamenn. Ég fór í minni stéttaskiptingu eftir því, sem venja er til og gert er í okkar hagskýrslum, og getur hæstv. ráðh. lesið um það í manntalsskýrslum frá 1920. En um húsmæður verð ég að segja það, að það er svo algengt; að konur taki að sér þá lífsstöðu, að það getur varla talizt sérmenntun fyrir sérstaka stétt, heldur almennt fyrir kvenfólkið. Fæstar vita hverjar muni lenda í þeirri stöðu, og mikill þorri þeirra fær not fyrir þá þekkingu. Ég vil þess vegna í raun og veru telja húsmæðrafræðsluna sem nauðsynlegan hluta af almennri kvennafræðslu, fremur en sem sérfræðslu fyrir sérstaka atvinnugrein.

Þá eru ólærðir verkamenn. Hér í Reykjavík eru þeir miklu fámennari heldur en verzlunar- og iðnaðarmannastéttirnar, ef trúa má opinberum hagskýrslum. Svo er líka með þá, að í stétt hinna ólærðu verkamanna veljast kannske helzt þeir, sem sami ráðh. hefir réttilega bent á á fundi að hafa frekar hæfileika til þess að starfa beint í þarfir frumframleiðslunnar heldur en að stunda skólanám. Ég held því, að það væri misráðið, ef ætti að koma upp sérfræðslu fyrir þá, áður en farið er að hugsa um að koma sérmenntun fyrir iðnaðarmanna- og verzlunarstéttirnar í sæmilegt horf.

Hæstv. ráðh. endaði ræðu sína með því að gefa vonir um hvað iðnfræðsluna snerti, að yrði byggt ofan á þennan grundvöll á næstu árum; en hann sagði með ennþá ákveðnari orðum í ræðulokin, að verzlunarfræðslan ætti aldrei að koma þar inn, verzlunarmenn gætu passað sína menntun sjálfir. Ég bendi aðeins á þetta til þess að sýna, að það er ekki ófyrirsynju, að ég hefi reynt að koma inn hjá hæstv. ráðh. ofurlitlum skilningi á því, að ef hann lítur á hagsmuni þjóðarheildarinnar, þá fer hann mjög villur vegar í þessum ummælum sínum.

Mér var ánægja að heyra lipurlegar undirtektir hv. 6. landsk. um það, að ekki þyrfti að láta við það standa, sem í raun og veru er talið fram í 18. gr. stjfrv., heldur mætti með lipurð nota það sem grundvöll til að ná mestu — eða jafnvel öllu — af því, sem ég fer fram á. En þó þótti mér sá ljóður vera á hans skoðun, að hann segist vera á móti styrk til verzlunarskóla. Það er afstaða, sem Alþingi verður að yfirgefa, svo framarlega sem menn vilja láta sér annt um, að menntunarskortur standi þjóðinni ekki á neinu sviði verulega fyrir þrifum. Því það er kannske hvergi eins mikil hætta á, að þjóðin biði tjón af menntunarskorti, eins og ef verzlunarstéttin er ekki nægilega menntuð.

Út af því, sem hv. 6. landsk. sagði svo um lánsheimildina í 20. gr. frv., get ég í raun og veru alveg tekið undir með honum.

Ég endurtek þá spurningu til hæstv. stj., hvað mikil fjárhæð muni felast í þessari lánsheimild. Að vísu virðist fjármálastj. komin á það lausabrokk hjá hæstv. núv. ríkisstj., að ekki muni miklu, hvort lánsheimild er í einum lagabálkinum fleira eða færra. Þó finnst mér, þar sem hv. 6. landsk., sem er flokksmaður hæstv. stj., hefir réttilega fest augun á því sama og ég, að hæstv. stj. ætti að gefa okkur báðum einhverja úrlausn, þó hún hefði e. t. v. ekki viljað svara mér einum.