16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

1. mál, fjárlög 1931

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég þakka hv. fjvn. fyrir það, að hún hefir lagt til, að fjárlagafrv. sé nú samþ. óbreytt. Hv. frsm. kvað n. þó ekki ánægða með afgreiðslu hv. Ed. á frv., og er þau eðlilegt, því seint mun hægt að ganga svo frá fjárl., að allir séu fullkomlega ánægðir. Sumar aðfinnslur hv. frsm. finnst mér vera réttmætar, en í sumum atriðum fannst mér hann ganga of langt í að hallmæla hv. Ed. T. d. finnst mér ekki ástæða til að bera hv. Ed. á brýn hrossakaup, því ég er hræddur um, að e. t. v. mætti þá finna eitthvað svipað í hv. Nd.

Annars þýðir ekki að vera að metast um þetta. En af því hér er ekki annar til andsvara úr hv. Ed., vildi ég geta. þess, að mér virtist hún sýna sæmilega gætni í till. um útgjaldahækkanir. Vildi ég nú óska, að þessi hv. d. féllist á þá till. hv. meiri hl. fjvn.samþ. nú fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir. Ég ætla ekki að fara að andmæla neinum einstökum brtt., sem fyrir liggja. Flestar eru þær kunnugar hv. dm. frá fyrri meðferð fjárlagafrv. Ég býst við, að menn séu yfirleitt ráðnir í, hvernig þeir ætla að greiða atkv., og þýðir því ekki að lengja umr. Ég vil aðeins benda á það, að þó ekki væri samþ. nema ein brtt., eru allar líkur til, auk þess sem það mundi auka tekjuhallann, að það leiddi til þess, að þingið lengdist um eina 10 daga hér frá. Ég vona því, að hv. dm. sýni þá sjálfsafneitun að fella allar brtt. og afgreiða frv. eins og það er nú.