10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2240 í B-deild Alþingistíðinda. (2961)

91. mál, gagnfræðaskóli

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þetta frv. er hliðstætt lögum þeim, sem afgr. voru á síðasta þingi um stofnun héraðsskóla í sveitum. Því var þá heitið, að samsvarandi frv. skyldi lagt fyrir Alþingi nú um ungmennafræðslu í kaupstöðunum. Það loforð er efnt með þessu frv.

Ungmennafræðslu hefir víðast hvar verið haldið uppi í kaupstöðum á síðari árum, og er því hér ekki eingöngu um nýja skóla að ræða. Hér er verið að koma skipulagi á gamla skóla, og verður það að teljast tímabært. Og þar sem skipulag það, sem sett var á síðasta þingi um héraðsskólana, var samþ. hér á þinginu með miklum meiri hl. atkv., þá vænti ég, að þetta frv. fái einnig fylgi mikils meiri hl. þings.

Frv. er undirbúið af fræðslumálastjórninni og var lagt fram í Ed., en ekki breytt þar til neinna muna. Þó var sú gr. felld úr frv., sem heimilaði ríkisstj. að taka lán til stofnfjárgreiðslu nýrra skóla. Þessa gr. viljum við taka aftur upp. Nú er mikill vöxtur í ungmennafræðslunni og mikið um byggingar nýrra skóla og endurbyggingar eldri skóla. Má því búast við, að sú fjárveiting, sem tiltekin er í fjárl. hvers ár til skólabygginga, hrökkvi skammt. Því er þessi heimild mjög nauðsynleg til þess að ríkissjóður geti greitt sitt lögákveðna framlag og fullnægt þörfinni. Nú stendur m. a. fyrir dyrum, að Hvítárbakkaskólinn verði færður að Reykholti og nýtt skólahús reist þar. Frv. liggur fyrir þessu þingi um nýjan skóla á Reykjum í Hrútafirði. Þá þarf Reykjavík að fá sinn skóla og Vestmannaeyjar á næsta ári, ef sæmilega árar. Ennfremur Hafnarfjörður, sem hefir haft sinn skóla, þar sem er Flensborgarskólinn, en hann býr nú við mjög léleg húsakynni, og er áhugi fyrir því að byggja hann upp bráðlega. Má því vænta, að byggja þurfi marga af þessum skólum upp á næstu 2–3 árum. Er því alveg nauðsynlegt, að lántökuheimild sé til, svo ríkið geti að sínu leyti fullnægt lögboðnum greiðslum til byggingar skólanna, þegar héruðin eða kaupstaðirnir geta fullnægt sínum hluta greiðslunnar. — Það má búast við, að hér verði um nokkuð mikla fjárhæð að ræða, sennilega 200–300 þús. kr. En miðað við það, sem veitt er til ýmislegs annars, þá er þetta reyndar ekki stór lánsupphæð. Hér er ekki um stærri upphæð að ræða en þá, sem heimiluð var til vegagerðar milli Þingvalla og Reykjavíkur, og verð ég þó að segja, að ólíku er saman að jafna.

Um hinar aðrar brtt. n. þarf ég ekki margt að tala. 3. brtt. miðar að því, að byggingu skólans hér í Reykjavík verði hagað þannig, að samnot geti orðið að húsum og kennurum fyrir hina ýmsu skóla hér. Það er samskólahugmyndin, sem stendur á bak við. N. vill því leggja ríka áherzlu á það, að þegar byggt verður hér, þá verði það þannig gert, að bæta megi við síðar húsnæði fyrir hina aðra skóla hér, svo sem skóla vegna iðnfræði, stýrimannafræði o. fl., sem hentugt er, að vinni á margan hátt með ungmennaskólanum, bæði um húsnæði og kennslukrafta.

Þá vill n. og breyta því, sem stendur í frv. nú, að kennd skuli danska eða sænska og enska, og setja í þess stað eitt Norðurlandamálanna eða enska. N. telur óheppilegt að gera fleiri en eitt mál að skyldunámi, enda er það almennt viðurkennt, að ekki beri að heimta af unglingum, sem hagnýtt nám stunda, að þeir læri nema eitt hjálparmál, enda má heita ókleift að kenna í slíkum skólum tvö mál svo að gagni sé. Hitt er annað, þó menn með sérgáfu til tungumálanáms læri fleiri en eitt mál.

Ef till. n. verða samþ., þá stendur frv. næstum óbreytt eins og það var lagt fyrir þingið.