15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2242 í B-deild Alþingistíðinda. (2966)

91. mál, gagnfræðaskóli

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

* Þetta frv. hefir fengið lítilsháttar lagfæringu í Nd. Er hún í þá átt, sem ég fór fram á, þegar þetta frv. var til meðferðar hér í þessari hv. deild: Það er sem sé gert ráð fyrir samstarfi fleiri alþýðuskóla hér í Reykjavík og í sömu byggingu og hinn fyrirhugaði gagnfræðaskóli. Því fer þó mjög fjarri, að þessi gr. hafi fengið þann búning, sem ég óskaði eftir. Sérstaklega álít ég ákvæði hennar, eins og það er nú, ganga svo nærri eignarréttindum Reykjavíkurkaupstaðar, að jafnvel orkar tvímælis, hvort hún getur samrýmzt stjskr.

Ég skal játa, að ég er ekki löglærður og veit því ekki, hvort bæjar- og sveitarfélög njóta sömu verndar á eignarrétti sínum sem einstaklingar njóta samkv. 63. gr. stjskr. En það er ljóst, að þessi gr. frv. leggur þær fjárkröfur á Reykjavíkurbæ, sem ekki væri löglegt að gera á hendur einstaklingum vegna ákvæðanna um eignarréttinn í 63. gr. stjskr.

Af þessari ástæðu vil ég hafa frjálsar hendur að því er þetta atriði snertir, og ætla því að sitja hjá við þessa atkvgr., og vona ég, að hæstv. forseti taki þessa ástæðu mína gilda.