29.03.1930
Neðri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (2972)

369. mál, héraðsskóli

Flm. (Hannes Jónsson):

Þetta litla frv., sem ég flyt hér ásamt hæstv. forsrh., er um það að taka upp einn skóla í héraðsskólalögin í viðbót við þá fjóra, sem eru fyrir, héraðsskóla á Reykjum í Hrútafirði, sem Strandamenn og Húnvetningar hafa samþ. að reisa nú á næstunni. Eins og hv. þdm. hafa séð á grg. fyrir þessu frv., hefir sýslunefnd Strandasýslu samþ. að leggja fram 20 þús. kr. til þessa skóla og sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu 15 þús. kr. Og báðar sýslunefndir hafa óskað eftir, að skólinn yrði byggður á næsta sumri, ef nokkur tök væru á.

Þessi staður er mjög vel fallinn til að vera slíkt skólasetur. Fyrst og fremst fyrir það heita vatn, sem þar er, sem nægja mun til þess að hita upp allstóra skólabyggingu. Ennfremur fyrir það, að sjórinn er þarna við hendina, svo að mjög auðvelt er að dæla sjó upp í sundlaug við skólann. Enn má geta þess, að ríkissjóður á þarna nokkuð stórt land, sem var tekið undan jörðinni, þegar hún var seld. Er það tangi fram í Hrútafjörð austanverðan, sem skólinn myndi þá sennilega verða byggður á, og nokkurt land fyrir ofan tangann, þar sem heitu uppspretturnar koma fram.

Það er þegar búið að gera þarna allmikið, búið að byggja vandaða, yfirbyggða sundlaug, og myndi hún vel nothæf fyrir skólann.

Af því að þetta er nú svo ljóst mál, þá geri ég ekki ráð fyrir, að það þurfi endilega að ganga til nefndar. Vildi ég vona, að hv. d. sæi sér fært að afgreiða það með sem mestum hraða, svo að það hafi tíma til að komast gegnum Ed. Ég hygg, að allir muni koma sér saman um það, að héraðsskóli þurfi einhver að koma upp milli Núpsskóla og Laugaskóla. Og Húnvetningar eru einmitt mitt á milli þessara tveggja staða. Það virðist því allt benda á, að þessi staður sé einmitt vel fallinn fyrir þann hluta Norðurlands, sem þætti of langt að sækja annanhvorn þessara tveggja skóla.

Ég mun því ekki gera að till. minni, að þessu máli verði vísa til n., en óska, að það fái að ganga til 2. umr. og verði svo tekið sem fyrst á dagskrá aftur.