29.03.1930
Neðri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2245 í B-deild Alþingistíðinda. (2973)

369. mál, héraðsskóli

Pétur Ottesen:

Eins og kunnugt er, var samþ. á síðasta þingi löggjöf um héraðsskóla. Það var hæstv. stj., sem flutti þetta mál inn í þingið, og ég gat ekki betur skilið en svo, að þetta ætti að vera nokkur framtíðarlausn á þessum héraðsskólamálum, a. m. k. í bili. Ég minnist þess, að hv. þm. V.-Ísf., fræðslumálastjórinn, lét þá orð falla í þessa átt. Og það styður líka þetta, sem fram kemur í grg. fyrir þessu frv., þar sem þar er sagt, að það hafi verið undirbúningur undanfarin ár að koma þessum skóla á fót. Þá hefir hæstv. stj. verið kunnugt um þetta, en samt sem áður hefir hún ekki tekið neitt tillit til þess við afgreiðslu þessa skólamáls á síðasta þingi. Og það styður þá vitanlega það, að bak við afgreiðslu þessa máls á síðasta þingi hafi legið það, að þannig skyldi þessum málum skipað fyrst um sinn sem þá var gert.

Í lögunum eru ákveðnir fjórir héraðsskólar, og nú er svo komið, að stórar og miklar byggingar eru á tveimur af þeim, og liggur nú fyrir að byggja upp þann þriðja. Er þegar hafinn nokkur undirbúningur í því efni.

Mér virðist því, að með þeim ákvæðum, sem nú gilda um héraðsskóla, þá sé sæmilega séð fyrir unglingafræðslunni í sveitum eins og er. Því að auk þessara skóla er það alkunnugt, að það eru einnig unglingaskólar víða dreifðir í kaupstöðum, og jafnvel sumstaðar í kauptúnum líka. Ég tel það þess vegna sjálfsagðan hlut, að þessu máli sé vísað til n. og það gaumgæfilega athugað, hvort eigi strax á næsta þingi að breyta frá því áformi og þeirri niðurstöðu, sem síðasta þing komst að í þessu efni.

Ég vil þess vegna gera að till. minni, að þessu máli verði vísað til menntmn. að umr. lokinni.