29.03.1930
Neðri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2248 í B-deild Alþingistíðinda. (2976)

369. mál, héraðsskóli

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Af því að ég heyri hreyft svolitlum andmælum gegn þessu frv., verð ég að bæta því við, að hér er ekki um nýja þörf að ræða eingöngu. Eins og menn munu minnast, var um skeið starfræktur góður skóli á Heydalsá við Steingrímsfjörð í Strandasýslu. Það er einn af elztu skólum af því tægi á landinu. Húsin standa þar ennþá. Það komu upp veikindi þar, og skólinn var lagður niður. Nú ætla menn ekki að nota húsið þar, heldur gera félag við Húnvetninga um sameiginlegan skóla suður í Hrútafirðinum. Ég vildi aðeins láta það koma vel í ljós, að þetta mál er hafið á óvenjulega góðum grundvelli; það liggur óvenjulega löng saga að baki þessu skólamáli þarna norðurfrá.