05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2250 í B-deild Alþingistíðinda. (2981)

369. mál, héraðsskóli

Hannes Jónsson:

Ég hefði reyndar getað sparað mér að standa upp aftur, því að það, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði, var ekki til þess að mæla móti málinu, heldur bara til þess að minna mig á, að ég hefði verið á móti því oft áður að auka á kostnað ríkissjóðs. En ég skal benda honum á, að ég hefi verið með því að setja þau lög, sem nú er farið fram á að auka við. Ég get fullvissað hv. þm. um, að ég var fyllilega samþykkur þeim, sem fluttu það mál. Ég álít, að þessir skólar leiði til þess, að unga fólkið í sveitunum fái þá menntun, sem flestum er nokkurn veginn nægileg fyrir almenn störf þar og nauðsynleg er sveitalífinu til fjörs og þroska. Og það verður æskunni áreiðanlega hollara en að sækja fræðslu til kaupstaðanna. Enda vill oft fara svo fyrir þeim, sem þangað hafa sótt, að þeim verður óljúft að hverfa til sveitanna aftur. Ég vil þá breyt. á skólamálum okkar, að sveitafólkið þurfi ekki að sækja nám sitt til kaupstaða, því að þá verður nánara samband milli skólalífs og lífsstarfa.

Mér þykir ekkert móti því að vera settur á bekk með hv. þm. Borgf. í þessum málum. Ég veit, að hann hefir viljað efla sinn skóla, eftir því sem föng eru á. Það eina, sem hann hefir á móti skóla fyrir norðan, er, að hann muni draga frá Reykholtsskóla. En það mun ekki verða, því að eftir því sem fleiri unglingar sækja þessa skóla og losna við álög kaupstaðamenntunarinnar, því meiri mun þörfin verða á menntastofnunum í sveit.

Annars skal ég gjarnan taka það skýrt og skorinort fram, að ég er viss um, að fé, sem varið er til þessara skólastofnana, er ólíkt betur varið en því, sem lagt er í vafasamar hafnargerðir hingað og þangað við strendur þessa lands. Hafnir eru að vissu leyti nauðsynlegar. En vegna þess að þær eru afardýrar, verða menn að komast af með eins ódýrt fyrirkomulag á þeim og unnt er. Ég veit, að hv. 2. þm. Skagf. hefir haft þær í huga, þegar hann talaði um, hvað ég væri íhaldssamur. (JS: Þegar kemur til annara héraða): Ég held, að ég hafi yfirleitt verið með þeim fjárveitingum, sem gátu leitt af sér aukin lífsskilyrði í sveitum og meiri menningu, jafnt hvar á landinu sem var. Og þetta verður ekki betur gert með öðru en að efla héraðsskólana og rækta landið. Ég fullvissa hv. 2. þm. Skagf. um það, að ég mundi ekki verða á móti því, ef flutt væri till. um þá breyt. á þessum lögum, að reistur skyldi héraðsskóli í Skagafirði. Ég hefi hugmynd um, að samvinna getur átt sér stað milli Skagfirðinga og Austur-Húnvetninga. Því að þótt þessi skóli komist upp á Reykjum, er ég alls ekki fullviss um, að skólamál þessara héraða séu fullleyst. Það mundi vera mjög æskilegt, að annar skóli risi þar upp í framtíðinni.