05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2251 í B-deild Alþingistíðinda. (2983)

369. mál, héraðsskóli

Hannes Jónsson:

Hv. 1. þm. Skagf. fer að gerast nokkuð vandlætingasamur hér í deildinni. Ég held hann ætti að líta í eiginn barm og vita, hvort hann finnur þar ekki gamlar syndir gagnvart Vestur-Húnvetningum. Þegar ég bar fram brtt. við símalögin, man ég ekki betur en að flokkur hans flykkti sér allur nema hv. 3. þm. Reykv. móti henni. Þó veit ég, að þeir voru búnir að lofa símanum. (MG: Hvaða síma?). Það var sími, sem átti að setja „kandídat“ þeirra eigin í samband við þá, og þeir höfðu lofað honum. Þeir sviku það allt saman. Þeir sviku hann til þess að gera mér bölvun. (MJ: Það sýnir bara, að þeir fóru ekki eftir flokkum). Nei, það átti bara að vera til þess að sýna, að ég hefði ekki sýnt nógu mikinn dugnað til þess að koma málinu fram. Hv. 1. þm. Skagf. er mál að koma norður og sanna, að hann hafi sýnt Vestur-Húnvetningum sanngirni í vegamálunum. Það er vissara fyrir hann að koma og reyna að þvo af sér og flokki sínum svikablettinn eftir símamálið. Það má vera, að hann hafi tilhneigingu til að greiða atkv. á móti nú enn, bara til þess að gera mér óþægindi og í von um að geta spillt aðstöðu minni fyrir norðan. Hann ætti að koma á herskipi einu sinni enn og vita, hvort þau bíta þar vopnin, sem hann ætlar að beita hér á þinginu.