05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (2987)

369. mál, héraðsskóli

Pétur Ottesen:

Það verður að virða mér til vorkunnar, þó að ég standi upp, þegar einn deildarmanna gerist svo óskammfeilinn að segja um heilan stjórnmálaflokk, að hann hafi svikið gefin loforð. Engin loforð hefi ég gefið um þetta mál og því ekkert svikið. Flokkurinn hefir engin loforð gefið heldur og ekkert svikið. Hv. þm. V.-Húnv. hefir því sett á sig óafmáanlegan lygastimpil með því að viðhafa þessi ummæli. Hann má hirða aftur orð sín. Þar hæfa bezt eyru, sem uxu.

Ég skal nefna dæmi um, hvernig hv. þm. snýst gegn málum manna í öðrum kjördæmum. Þegar hann hafði fengið samþykki þessarar hv. deildar fyrir styrk til bryggjugerðar á Hvammstanga, þá hamaðist hann móti hliðstæðum styrkjum til annara héraða. Hann talaði sig dauðan, varð að rísa upp frá dauðum, fá leyfi forseta til eins langra aths. og mögulegt var, til þess eins að berjast gegn sanngjörnum styrkjum til bráðnauðsynlegra fyrirtækja í öðrum héruðum. En veitinguna til bryggjunnar á Hvammstanga fékk hann með atkv. mínu og annara flokksmanna minna.

Annað dæmi eru breytingarnar á vegalögunum. Hann var með öllum brtt. sinna flokksmanna um vegi í kjördæmum þeirra, en móti öllum öðrum undantekningarlaust. Ég tók greinilega eftir þessu við atkvgr. um þessi mál, enda sver það sig í ættina. Hv. þm. hefir því með þessari framkomu sýnt hina mestu hlutdrægni og rangsleitni til viðbótar því, sem ég hefi áður lýst um framferði hans.