05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2254 í B-deild Alþingistíðinda. (2989)

369. mál, héraðsskóli

Hannes Jónsson:

Fyrst hv. 1. þm. Skagf. heimtar, get ég vel nefnt manninn með nafni, eins og ég nefndi símalínuna áðan. Það var Eggert Levy, bóndi á ósum, sem hafði farið til flokksmanna sinna hér í fyrra og sýnt þeim fram á með rökum, hversu mikil þörf væri fyrir þessa línu. Þó að hv. 2. þm. G.-K. hafi afsakað sig og neitað, að hann eða flokksmenn hans hafi nokkurn tíma gefið nokkurt loforð, þá trúi ég ekki öðru en að ég gæti fengið umsögn Eggerts fyrir því, að þessi hv. þm. hafi lofað að vinna sérstaklega fyrir hann í þessu efni. Hann greiddi atkv. á móti símanum með nafnakalli. Og Eggert Levy sagði það við mig sjálfur, að sér hefði komið sú frétt mjög á óvart. Um það leyti sem ég fór á þing í vetur, var 9. hefti þingtíðindanna komið norður. Hann sagði þá, að sig undraði stórlega að sjá brigðmælgi samherja sinna meðal þingmanna, er hann þó hefði treyst svo vel. Honum sárnaði þessi brigðmælgi, sem von var. Maðurinn er kappsfullur og heldur fast á þeim málum, sem hann hefir áhuga fyrir. Ég get vitanlega leitt hann sem vitni í málinu. En meðan það er ekki hægt vegna fjarlægðar hans, þá verða menn að dæma á milli mín og hv. 2. þm. G.-K. og þeirra, sem engin loforð segjast hafa gefið.

Hv. 2. þm. G.-K. sagðist reyndar aldrei vera vanur að gefa slík loforð. Þetta er nú í sjálfu sér heldur ósennilegt. Ég held, að bæði hv. þm. og fleiri gefi einatt slík loforð, einkum er þeir ganga til kosninga. Hitt er sönnu nær, að hv. þm. hafi máske aldrei uppfyllt neitt. loforð, sem hann hefir gefið.