05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2255 í B-deild Alþingistíðinda. (2991)

369. mál, héraðsskóli

Ólafur Thors:

Ég segi eins og hv. þm. V.-Húnv., að það verður hver að trúa því, sem hann vill um þetta. Ég held þó, að enginn trúi því, að ég hafi svikið loforð við flokksbróður minn. Það er líka þeim mun ótrúlegra, að ég hafi gert það, þar sem afstaða stjórnarandstæðinga er sú, að þeir bera síður ábyrgð á því, hvernig um afgreiðslu mála fer, og hafa því ekki ástæðu til að fara eins varlega og meiri hl. þarf að fara. Það er því ólíklegt, að ég hefði lofað að vera með þessu, en verið svo á móti því. Ég veit vel, að ég hefi aldrei lofað því. Og ég veit líka vel, að Eggert Levy hefir aldrei sagt við hv. þm., að ég hafi lofað því. Þetta er bara ruglingur í heila hv. þm. Þessi Jónasarmaður á ekki að vera að tala um loforð og svik. Honum ætti að vera svo í fersku minni eldhúsdagsumr., þar sem það var margsannað, að sú stj., er hv. þm. styður, hefði fáu svo lofað, að hún hefði ekki svikið það. Og þessi hv. þm. hefir sjálfur oftlega gengið á móti sinni eigin skoðun. Ég vil aðeins minna á það, þegar „sósíalistakjóinn“ elti „framsóknarrituna“.