24.01.1930
Neðri deild: 4. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Jónsson:

Ég vildi mega gera eina aths. út af atriði í ræðu hæstv. fjmrh. Meðal útgjalda við undirbúning alþingishátíðarinnar nefndi hæstv. ráðh. 350 þús. krónur. Af því að ég er í undirbúningsnefndinni og býst við að verða einn af þeim, sem fá orð í eyra að lokinni hátíðinni, er mér umhugað um, að ekki verði skrifað á hennar reikning annað en það, sem þar á heima. Mér er alveg óskiljanlegt, til hvers þessar 350 þúsundir hafa farið. Ég vildi spyrja, hvort Mosfellsheiðarvegurinn nýi er með í þessu. Heyrir hann þá undir hátíðarkostnaðinn? Því á ég bágt með að trúa.

Það er rétt að ég minnist á það núna, að mér þykir vænt um, að hæstv. ráðh. (EÁ) er farinn að finna það, að ótakmarkaðar ábyrgðir ríkissjóðs t. d. á bönkum geta haft áhrif á lánstraust okkar erlendis. Ég hefi oft hreyft því máli hér á Alþingi, en enga áheyrn fengið, hjá samherjum hæstv. ráðh.

Það er mjög gleðilegt að heyra, hvað hagur ríkissjóðs er góður. En þó að það sé dyggð hjá hverjum fjármálaráðherra að vera nokkuð svartsýnn, þá held ég að óþarfi sé að vera svartsýnn út af því, hvað innflutningurinn 1929 var mikill. Ef ekki verður aukinn innflutningur eftir slíkt góðæri, sem verið hefir undanfarið, er það vottur um svefn og sinnuleysi þjóðarinnar.