15.02.1930
Neðri deild: 28. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (3015)

46. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. minni hl. (Hannes Jónsson):

Ég er hræddur um, að hv. þm. V.-Ísf. hafi ekki farið með rétt mál þegar hann sagði, að kennarastöður í sveitum væru ekki veittar, nema þegar trygging væri fyrir föstum skólastað. Ég veit dæmi um hið gagnstæða, svo það er a. m. k. til, að vikið sé frá þeirri reglu, hafi hún þá nokkurntíma verið tekin upp.

Það var ekki mín meining, að halda ætti niðri launum farkennara til þess, að hægt væri að forsvara að greiða hreppstjórum og oddvitum líka minna kaup en sanngjarnt er. Hinsvegar hefi ég verið að sýna fram á, að laun barnakennara væru allsæmileg, þó þeir geti að vísu ekki lifað á þeim einum allt árið um kring; enda mætti hækka þau betur en gert er ráð fyrir í þessu frv., ef þeir ættu að geta það. Ef kennararnir ættu aldrei að vinna að öðru en kennslunni, má búast við, að hv. þm. V.-Ísf. komi á næstu þingum fram með till. um að fá kennaralaunin hækkuð aftur.

Eins og ég hefi tekið fram, býst ég ekki við, að auknar umr. um þetta mál nú hafi mikið að segja. Af afgreiðslu þess hér nú er hægt að sjá, hve miklum gjöldum hv. þdm, vilja bæta á ríkissjóð vegna þessarar stéttar embættismanna landsins. Er svo hægt við 3. umr. að gera þær brtt. við frv., sem sjá enn betur fyrir rétti sveitanna en hv. flm. gerir, og koma samræmi á um þessar launagreiðslur.