15.02.1930
Neðri deild: 28. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í B-deild Alþingistíðinda. (3016)

46. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Mér skilst, að það sé ekki ágreiningur milli nefndarhlutanna um það, að réttmætt væri að bæta eitthvað úr misrétti í launagreiðslum til barnakennara í farskólum og föstum skólum, og ekki heldur misréttið á hlutfallinu á greiðslu ríkissjóðs og sveitarsjóða til farkennara og skólakennara. Ágreiningurinn er aðeins um það, í hve stórum mæli þetta skuli gera.

Farkennarar hafa, þegar ókeypis fæði og húsnæði er hæfilega metið, nálægt 800 kr. að byrjunarlaunum án dýrtíðaruppbótar og aldursuppbótar, en kennarar og skólastjórar við fasta skóla 1300–1800 kr. Þetta er svo mikill og óeðlilegur munur, þar sem starfið er nálega hið sama, að naumast verður komizt hjá að leiðrétta það að ekki minna leyti en frv. gerir ráð fyrir.