16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Jónsson:

Í sjálfu sér hefi ég ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um þessar tvær brtt., sem ég á hér. Önnur er á þskj. 572, og fer fram á hækkun á styrknum til Elliheimilisins á Grund. Hv. Ed. hefir tekið upp 10 þús. kr. fjárveitingu til þess, og er ég henni þakklátur fyrir það, en hinsvegar er ég ekki ánægður með þá upphæð, sökum þess að hún er auðvitað allt of lág, þegar tekið er tillit til kostnaðarins við verkið, sem mun nema hálfri millj. króna. Þess vegna vildi ég fá þennan styrk hækkaðan nokkuð, en vil geta þess, að í brtt. stendur 25 þús. í stað 20 þús., og mun það orsakast af því, að ég skrifaði hana í svo miklu flaustri í gærkvöldi, en áður var búið að fella 25 þús. kr. framlag í þessari hv. d.

Um hina brtt. er það að segja, að hún fer fram á, að tekinn verði aftur upp í fjárl. styrkurinn til Þórðar Kristleifssonar, eins og Nd. hafði áður samþ. Annars langaði mig til að segja nokkur orð í sambandi við afgreiðslu fjárl. á þessu þingi, því að hún virðist ólík því, sem hún ætti að vera samkv. þingvenju og því valdi, sem Nd. er gefið í því efni. Nú í seinni tíð eru menn farnir að taka upp á því að afgreiða lögin eins og þau koma frá Ed., og þótt ég vilji ekki segja, að það sé í sjálfu sér ósæmilegt, verð ég þó að álíta, að það sé miður heppilegt. Það er að vísu illt að láta fjárl. þvælast mikið í milli deilda, því að reynslan hefir sýnt, að við það hækka útgjöldin mikið, en ég verð að segja, að ef á að taka upp þessa reglu, þá verður hv. Ed. að sýna meiri sanngirni við afgreiðsluna heldur en hún hefir nú gert, enda geta þm. ekki unað því að réttmæt fjárframlög, sem búið er að samþ. í Nd., séu drepin í Ed., og ef svo á að halda áfram, hygg ég, að boginn verði svo hátt spenntur, að hann brotni. Þótt starf hv. Ed. kunni að vera gott, má þó búast við því, að það beri ekki af störfum þessarar hv. d., einkum þar sem hér er lengri undirbúningstími til afgreiðslunnar. Við því mætti líka búast, að þessi d. væri stolt af því, að hún er aðaldeildin og sætti sig ekki við, að gerðir hennar séu einskis metnar. Ég verð því eindregið að ráðleggja hv. Ed. að fara framvegis vel með vald sitt, þannig að fjárl. þurfi ekki að ganga í gegnum fleiri umr. en þörf er á.

Það er ein till., sem komst inn í fjárl. í Ed., sem er mjög athugaverð. Það er heimild fyrir stj. að reisa berklaskýli í Ölfusi, og ég verð að segja það, að mér finnst það nokkuð hart, ef hv. Ed. á að komast upp með það að afgreiða slík mál, sem ættu að vera sérstök og fá sérstakan undirbúning hér í þinginu, enda er það mjög vafasamt, hvort slíkt er ekki brot á þeim almennu reglum, sem hingað til hafa gilt hér í þinginu.

Þetta er því athugaverðara sem þetta er ekkert einsdæmi í hv. Ed. að bæta slíkum heimildum inn í lögin, og er þá skemmst að minnast, að í fyrra fékk hæstv. dómsmrh. því til vegar komið, að ríkisprentsmiðja skyldi keypt, með sömu aðferð og nú: Sami hæstv. ráðh. hefir sýnt, að hann vill koma fram í Ed. ýmsum sínum áhugamálum, þannig að þau verði samþ. nefndarlaust og óathuguð, og án þess að Nd. fái tækifæri til að gagnrýna þessi mál. Ef það er meining hæstv. ráðh. að koma þarna upp einhverju hafsauga fyrir fé landsins, þar sem hann keypti þarna í fyrra jarðir fyrir 100 þús. kr., og vill nú fá 50 þús. kr., þá álít ég ekki heppilegt að gefa of lausan tauminn. Sagan um Laugarvatn getur endurtekið sig þarna, og alltaf verður heimtað meira og meira fé, en hv. Ed. má því vita, að við í þessari hv. d. sættum okkur ekki við slíka ósanngirni frá hennar hálfu.