20.02.1930
Neðri deild: 32. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2267 í B-deild Alþingistíðinda. (3021)

46. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. minni hl. (Hannes Jónsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, var afgr. til 3. umr. með allmiklum atkvæðamun, og þar með var því slegið föstu, að hækka framlag úr ríkissjóði til farkennaralauna um 280 kr. fyrir hvern farkennara árlega.

Ein af aðalástæðunum fyrir þessari hækkun er af flm. frv. talin sú, samkv. ræðum hans um þetta mál bæði nú og í fyrra, að leiðrétta veiði það ósamræmi, sem sé um fjárframlag ríkissjóðs annarsvegar og sveitarsjóða hinsvegar til farskólafræðslu, miðað við fjárframlög til fastaskóla. En þó að öll hækkunin sé látin falla á ríkissjóð, þá er hún ekki nægileg til þess að fullkomið samræmi fáist, og er því hætt við, að enn komi fram till. um aukin fjárframlög frá ríkissjóði. Ég hefi því borið fram brtt. á þskj. 146, sem fara í þá átt, að ná fullu samræmi um fjárframlög til þessarar fræðslustarfsemi nú þegar, fyrst launakröfurnar eru byggðar á því, og þar sem búast má við, að þær komi aftur fram síðar.

Fyrsta brtt. mín fer í þá átt að lækka árslaun farskólakennara um 100 kr. frá því, sem ákveðið er í frv., og samkv. 2. brtt. eiga framlög sveitanna að lækka um þessa upphæð. Eftir till. mínum verður þá raunveruleg hækkun á árslaunum farskólakennara 140 kr. frá því, sem er samkv. núgildandi lögum.

Það virðist vera rétt að lækka framlög sveitanna um þessa upphæð, því að upphaflega voru framlög þeirra of há, borið saman við framlög annara aðila til barnafræðslu.

Sveitunum er mikil þörf á því, að dregið verði úr þessum útgjöldum þeirra, einkum þar sem það er óhjákvæmilegt að auka útgjöld sveitarsjóðanna á ýmsum sviðum, t. d. með því að hækka laun oddvita. Raunveruleg laun sveitarstjórna eru nú víða meiri en lögin heimila, og hefir það verið ákveðið með leyfi sýslunefnda.

Samkv. þessum till. mínum sparast fyrir ríkissjóð dýrtíðaruppbót af þessum 100 kr. En aftur á hinn bóginn álít ég henni ekkert illa varið til þess að bæta launakjör hreppstjóra. Þeir hafa nú fyrir sína starfsemi rúml. 100 kr. árl. þóknun, sem er, eins og allir sjá, allt of lítil laun fyrir þau fjölbreyttu og erfiðu störf, sem þeir hafa með höndum.

Samkv. gildandi lögum þurfa farskólakennarar 18 ára þjónustu til þess að ná fullri aldursuppbót, en aðrir barnakennarar aðeins 15 ár. Þetta ósamræmi vil ég einnig leiðrétta og ætlast til, að farkennarar þurfi ekki heldur nema 15 ár til þess að ná fullri aldursuppbót; um það hljóðar 3. brtt. mín. Vænti ég að hv. þd. sjái sér fært að samþ. þessar brtt. mínar.