20.02.1930
Neðri deild: 32. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (3022)

46. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Ásgeir Ásgeirsson:

Það er að vísu rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að ein af ástæðunum, sem þetta frv. styðst við, er það ósamræmi, sem nú er í framlögum úr ríkissjóði annarsvegar og sveitarsjóðum hinsvegar til barnafræðslunnar í landinu. En það er alrangt, að þetta sé eina ástæðan eða tilefnið til þess, að þetta frv. er fram komið. Aðalástæðan er sú, að farkennaralaunin hafa alltaf verið og eru of lág. Það er því villandi, sem hv. þm. klifar sífellt á, að ósamræmið í framlögum til barnafræðslunnar sé aðaltilefni þessa frv. — Nei, farkennaralaunin eru of lág, framhjá þeirri staðreynd verður ekki komizt á annan hátt en að hækka þau. Ef frv. hefði aðeins verið borið fram til þess að nema burt ósamræmið, þá hefði ekki verið í því till. um launahækkun, heldur hefðu framlagshlutföllin verið jöfnuð á annan hátt. Í frv. er lagt til, að öll launaviðbótin verði greidd úr ríkissjóði, og að því leyti stefnir það eingöngu til samræmis. En hitt er að vísu rétt hjá hv. þm., að með þessu frv. er ósamræmið ekki jafnað að fullu. Ef hann hefði flutt hækkunartill. til fullkomins samræmis, þá hefði ég fylgt þeim.

Þegar búið er með þessu frv. að samþykkja í þessari hv. þd. 200 kr. hækkun á farkennaralaununum, þá gerir hv. þm. tilraun til þess að klípa helminginn, eða 100 kr., af því, sem samþ. hefir verið. Því, sem „sparast“; vill hv. þm. verja til þess að hækka laun hreppstjóra og oddvita. Áður hefir hv. þm. haldið því fram, að það væri ekki kleift að gera þessar bætur á launakjörunum; ríkissjóður mætti ekki við því. En sparnaðurinn verður undarlegur, ef það má veita öðrum en kennurunum þessa hækkun. — Eins og ég hefi áður sagt, þá er ég, út af fyrir sig, fús til að taka til athugunar launakjör oddvita og hreppstjóra; en þau verða ekki leiðrétt með því, að staðið sé á móti réttmætum kröfum farkennaranna. Fordæming farkennaranna er engin bót fyrir hina, neina hv. þm. huggi sig við það, að bezt sé að allir hafi sem versta afkomu.

Ég get fallizt á 3. brtt. hv. þm.; það er sanngjarnt, að allir barnakennarar þurfi ekki nema 15 ára kennslu til þess að ná fullri aldursuppbót, í stað þess að farkennarar þurfa nú 18 ára þjónustu. En þetta er að vísu ekki stórvægilegt atriði.

Ég dáist að þeim dugnaði og elju, sem hv. þm. leggur í þetta mál; en, sem betur fer, þá kemur dugnaður hans venjulega fram á betri málstað en hann hefir nú valið sér í þessu máli.