20.02.1930
Neðri deild: 32. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2269 í B-deild Alþingistíðinda. (3023)

46. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. minni hl. (Hannes Jónsson):

Mér kemur það ekki á óvart, þó að hv. þm. V.-Ísf. hefði orðið mér sammála, ef ég hefði komið með till. um að bæta úr ósamræmi kennaralaunanna með því að hækka enn framlagið úr ríkissjóði til barnafræðslunnar. En ég býst við, að þó þær till. komi ekki nú, þá muni verða vart við þær á næstu þingum. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. geti ekki verið þekktur fyrir að láta beita slíku ranglæti lengi, að eigi náist fullkomið samræmi í launum allra barnakennara. Hann er í þessu máli að framfylgja þeim smáskammtalækningum, sem hv. 2. þm. G.-K. sagði, að notaðar væru til þess að stækka lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Það virðist vera takmarkið, að hækka smám saman útgjöldin úr ríkissjóði til barnafræðslunnar.

Ég hefi nú í framhaldsnál. mínu birt samanburðarskýrslu um launagreiðslur til barnaskólakennara, bæði við fasta skóla og farskóla, til þess að hv. þdm. gætu áttað sig á því samandregnu á einum stað. Það skiptir ekki miklu máli, hvort útgjöldin koma úr ríkissjóði eða annarsstaðar að. Þetta eru útgjöld, sem þjóðin öll verður að bera. Þó að mest hafi verið um það talað, hvað launin séu lág og að þörf sé á miklum launauppbótum til þess að starfsmennirnir geti lifað, þá er ekki hægt að taka einstakar stéttir út úr, heldur verður að athuga sér jafnvægi í launakjörunum og gera sér ljóst, hvað launin þurfi að vera til þess að komizt verði af með þau. Þó að ég hafi ekki borið fram neina till. til hækkunar á launum þeirra starfsmanna, sem ég áður nefndi, í sveitunum, og verst eru launaðir, þá býst ég við, að það verði gert innan skamms, þegar launalögin verða endurskoðuð og samin að nýju.

Ég mundi ekki mæla á móti því, að þessir starfsmenn gætu fengið sem hæst laun eins og aðrir, ef ég sæi nokkra möguleika til þess, að þjóðin risi undir því. Það hefir komið í ljós hér á Alþingi, að þegar ein stétt eða fleiri hafa hlotið launahækkun, þá hefir verið vitnað til þess til samanburðar, þegar þurft hefir að koma fram launakröfum annara stétta. Ég get ekki séð, að launakjör farkennaranna geti talizt sérstaklega bágborin, þegar litið er á starfslaunin í sveitunum yfirleitt. Ég veit, að þau eru lág, borið saman við það, sem gerist í Reykjavík. En við megum ekki láta þær stóru tölur, sem hér er reiknað með í bænum í flestum efnum, villa okkur sýn í þessu máli.

Ég sé svo ekki ástæðu til að rekja þetta ítarlegar, en get að lokum bent hv. þm. V.-Ísf. á það, að hann vill nú víkja frá því, sem hann hefir áður haldið fram, að þörf væri á að leiðrétta ósamræmi, sem nú væri á launakjörum barnakennara. Nú heldur hv. þm. því fram, að þetta sé aðeins hreint og beint launahækkunarspursmál fyrir farkennarana. Áður hefir hann reyrt að tala til velvildar og meðaumkunar þingmanna til sveitakennaranna og hvatt til að rétta hluta þeirra gagnvart kennurum við fasta skóla. Hann hefir notað þessa ástæðu til þess að vinna samhug þingsins við meðferð þessa máls og til þess að auka því fylgi, og álít ég það ekki betur farið fyrir hv. þm.

Ég skal taka það fram um skýrslu mína um samanburð á kennaralaununum, að ég hefi gert áætlun fyrir fæði farkennara, og um það getur að vísu orðið ágreiningur; en ég býst við, að ég hafi reiknað það of lágt heldur en of hátt. Ég ætlaðist til að enginn gæti véfengt það, að farkennaralaunin væru a. m. k. eins há og ég hefi gert grein fyrir.

Kennarar, sem lifa í sveit en ekki í kaupstað, verða að teljast sæmilega launaðir með 1430 kr. fyrir 6 mánuði. Og ef hlunnindi þeirra væru metin að fullu, verða launin 15–1.600 kr. fyrir þann tíma að vetrinum.