20.02.1930
Neðri deild: 32. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2271 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

46. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég sé ekki ástæðu til að svara miklu því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði. Ég hefi áður svarað því, sem kom fram í síðustu ræðu hans. Ég vil aðeins benda honum á, að þegar um er að ræða misrétti í launakjörum, þá er ekki hægt að leiðrétta það, nema að taka út úr þá, sem verða fyrir hallanum, eins og gert er með þessu frv.

Það er ekki hægt að koma í veg fyrir, að starfsmannalaun hækki síðar, með því einu að standa á móti öllum launabótum nú. Og óhugsandi er, að launakjörunum verði öllum breytt í einu, þannig að ekki þurfi aftur um það að bæta. Það er ómögulegt að taka nú ómakið af þeim, sem eiga að greiða atkv. um þessi mál í framtíðinni, eftir þeim ástæðum, sem þá gilda.

En ef nú eru aftur á móti bætt kjör þeirra, er lægst laun hafa, verður auðveldara að standa á móti hækkunarkröfum síðar meir. En móti þessum kröfum er ekki hægt að standa. Komist laun farkennara í það horf, sem ég fer fram á í þessu frv., mundi ég telja vonlaust að koma fram frekari hækkun á launum þeirra í nokkur ár, að óbreyttum öllum ástæðum.

Hitt var útúrsnúningur hjá hv. þm., að ég hefði neitað því, að ég hefði tekið tillit til ósamræmisins milli sveita og kaupstaða. Ég tók það einmitt fram, að ég hefði gert það. Sveitakennarar hefðu orðið hart úti til þessa, og sökum þess hefðu sveitirnar staðið illa að vígi í samkeppninni um góða krafta, og ég skaut því til vina sveitanna, að þeir vildu styrkja þær í baráttunni um hina hæfustu kennslukrafta.

Ég vil enn leggja áherzlu á, að allar brtt. hv. þm. verði felldar, að undantekinni 3. brtt. hans. Hún er fremur til bóta, þótt smá sé.