20.02.1930
Neðri deild: 32. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2272 í B-deild Alþingistíðinda. (3025)

46. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. minni hl. (Hannes Jónsson):

Ég held, að ég geti nú varla mælt öllu skörulegar á móti frv. hv. þm. V.-Ísf. en hann gerði sjálfur. Hann sagði, að ef þetta frv. næði fram að ganga, væri alveg vonlaust um, að kennarar fengju launahækkun síðar. Þetta getur ekki stafað af öðru en því, að laun þau, sem frv. fer fram á kennurum til handa, séu óeðlilega há og ættu því fremur að lækka en hækka.

Ég held, að það sé ekki rétt ályktað hjá hv. þm. V.-Ísf., að hækkuð laun hjálpi mikið til að fá góða kennara í sveitirnar. Ég vil spyrja hv. þm. sjálfan. hvort hann myndi vilja gerast farkennari eða fastur kennari í sveit, jafnvel þó að launin væru bætt svo, að þau nálguðust fræðslumálastjóralaunin. Ég hygg ekki. Það er nú venjulega svo, að þeir, sem þykjast betur gefnir en almenningur, vilja halda sig sem næst kjötpottunum. Ég held, að hæfileikarnir verði ekki dregnir inn í sveitirnar á þennan hátt.