04.03.1930
Efri deild: 40. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2273 í B-deild Alþingistíðinda. (3031)

46. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Fjhn. hefir athugað þetta frv., og telur hún rétt, að það nái fram að ganga.

Það, sem á að nást með frv., er tvennt. Í fyrsta lagi að bæta laun farkennara, sem hafa til þessa verið of lágt launaðir, samanborið við aðra kennara. Hefir oft reynzt erfitt að fá hæfa farkennara, vegna hinna lágu launa. Í öðru lagi á frv. að bæta úr misrétti, sem sveitahéruðin hafa orðið fyrir um kostnað við barnafræðslu. Í kauptúnum og kaupstöðum kostar ríkissjóður kennsluna að helmingi, og leggur enda meira af mörkum sumstaðar. Í sveitum hefir ríkissjóður að vísu tekið þátt í peningalegri greiðslu að helmingi, en eins og kunnugt er, er aðalgreiðslan þar fólgin í fæði, húsnæði og þjónustu, og í þeirri greiðslu hefir ríkissjóður ekki tekið þátt hingað til. Úr þessu er bætt með frv. á þann hátt, að ríkissjóður einn greiðir launahækkunina.

Frv. leiðir auðvitað af sér nokkuð aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, — 20–25 þús. kr. árlega, að því er áætlað er. En þessi upphæð er ekki svo há, að eigi verði að teljast meira virði, að með frv. er bætt úr gömlu misrétti milli kaupstaða og sveita, og sveitunum tryggðir betri kennslukraftar en áður. Ég skal geta þess, að einn hv. nm. hefir óbundið atkv. um brtt., ef fram koma; að öðru leyti er n. sammála.