13.03.1930
Efri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (3042)

117. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jónas Kristjánsson):

Um þetta frv. til breyt. á jarðræktarlögunum hafa tveir af nm. landbn. orðið sammála, en sá þriðji gerir grein fyrir sínu atkv.

Þetta frv. fer fram á að styrkja og hvetja bændur til þess að reisa hlöður á jörðum sínum. Það má kannske segja sem svo, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að styðja landbúnaðinn, ríkissjóði stafi þegar allmikill kostnaður af því, en hinsvegar er á það að líta, að hér er um talsverða nauðsyn að ræða.

Það er nú svo, að heyið er bezt geymt í góðum hlöðum, en meginið af þeim hlöðum, sem hingað til hafa verið reistar; er smáar hlöður og dreifðar víða út um tún jarðarinnar, en það hefir þær afleiðingar, að hirðing og gjafir á svo mörgum stöðum kosta miklu meira starf og erfiði heldur en ef hægt væri að byggja þær stærri og í einu lagi. Og meiningin með þessum lögum er að hvetja bændur til þess að byggja stærri hlöður og gera gripahús sín á færri stöðum. Þar sem vinnukraftur er orðinn dýr og torfenginn, sýnist mikil nauðsyn á því, að snúið sé að þessu máli.

Í þessu frv. er farið fram á, að veittur sé 1 krónu styrkur á dagsverk til handa þeim, sem gera þurrheyshlöður. Ennfremur er til þess ætlazt, að styrkurinn sé bundinn því skilyrði, að hlöðurnar séu reistar eftir fyrirmynd frá Búnaðarfélagi Íslands, og þá búizt við því, að aðallega sé átt við steinhlöður. Það getur líka komið til mála um timburhlöður á stöku stað, þar sem erfitt er um efni til þess að byggja úr steini, og þá verður að meta hve mikið skuli lagt í dagsverk. Eftir því sem Búnaðarfélag Íslands hefir gert áætlun um, þá er ½ m3 í steinhlöðum gerður að einu dagsverki. Ef þannig væri reist t. d. 600 hesta hlaða, yrði hún að rúmmáli hér um bil 420 rúmmetrar, og þegar það er lagt í dagsverk, verður það h. u. b. 840 dagsverk, og ef hvert er metið á krónu, þá verður styrkurinn jafnmargar krónur. Þá verður hann talsvert á aðra krónu fyrir hvern hestburð. Þetta þótti nm. kannske fullríflegt, af því að svo mikill styrkur er veittur samkv. jarðræktarlögunum. Þess vegna er lagt til að hafa 75 aura í staðinn fyrir 1 krónu, og verður þá sem næst því 1 kr. fyrir hvern hest.

Ennfremur þótti réttast að takmarka þá upphæð, sem veitt væri á ári hverju til þessara hlöðubygginga, af því að ekki er hægt að segja fyrirfram, hversu miklar umsóknir kunna að koma. Þess vegna er a. m. k. rétt í byrjun að ákveða upphæðina. Við tiltókum hana 75 þús. kr. Okkur þótti það sérstök nauðsyn, vegna þess að samkv. jarðræktarlögunum hækkar alltaf sú upphæð, sem veitt er á ári hverju til jarðabóta og jarðræktar. Síðan þessi lög komu til framkvæmdar hafa útgjöld vegna þeirra vaxið um full 100 þús. kr. á ári, þannig að 1928 voru þau komin upp í ½ millj. kr. Vegna þess arna fannst okkur réttast að takmarka styrkinn við einhverja vissa upphæð.

Það má náttúrlega segja ýmislegt um það, hvað sé hæfileg upphæð. En ef mönnum sýnist svo, má hækka eða lækka upphæðina fyrir hvert dagsverk, eftir því sem reynslan kennir, hvað hæfilegt sé. En það má vænta þess, að þessi styrkur, sem bændum verður veittur, verði lyftistöng undir það, að gert sé meira en áður að því að byggja hlöður.