13.03.1930
Efri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2283 í B-deild Alþingistíðinda. (3044)

117. mál, jarðræktarlög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það er síður en svo, að ég telji ekki nauðsyn á því, að byggðar séu góðar hlöður, sem séu til frambúðar yfir heyfeng landsmanna. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að tryggja heyforðann betur heldur en að geyma hann í góðum hlöðum. Og ég er viss um, að hér er í raun og veru stórt verkefni fram undan. Þær frambúðarhlöður, sem til eru í landinu, álít ég að ekki geri betur en að taka við þeim aukna heyfeng, sem fæst á næstu árum með aukinni ræktun; og þá er það hlutverk, sem liggur fyrir, hvorki meira né minna en það, að byggja yfir allan þann heyfeng, sem nú er í landinu. Þetta tekur langan tíma og kostar mikla peninga.

Þetta frv. ætlast til þess, að ríkissjóður styrki þessar byggingar. Það er auðvitað framhald af því, sem áður er búið að gera til styrktar landbúnaðinum. En ég vildi aðeins vekja athygli á því, að hér er verið að binda ríkissjóði útgjaldabyrði um ófyrirsjáanlegan tíma, þannig að alltaf verður að ætla fé til þessa, hvernig sem á stendur. Ég tel, að í rauninni sé búið að ganga nokkuð langt í því efni að lögbinda tekjur ríkissjóðs fyrir framtíðina, og að tæplega sé forsvaranlegt að bæta miklu þar við, nema með því móti að útvega ríkissjóði jafnframt einhverjar nýjar tekjur. Það er í rauninni allt annað mál, þegar verið er að binda tekjurnar fyrir framtíðina, heldur en fyrir eitt og eitt ár í senn.

Útgjöld, sem ríkissjóður hefir haft vegna jarðræktarlaganna, hafa alltaf aukizt með hverju ári, eins og hv. frsm. tók fram. Ég veit ekki, hvort ég hefi tekið rétt eftir því hjá hv. frsm., að útgjöldin hefðu 1928 verið um ½ millj. kr. Ég held, að þetta sé ekki rétt, því að árið 1928 voru þau rétt um ¼ millj. kr. En eigi að síður er það rétt hjá hv. frsm., að styrkurinn hafi alltaf farið vaxandi. 1929 munu útgjöldin hafa verið 375 þús. kr., og eftir því, sem ég hefi frekast getað aflað mér upplýsinga um, býst ég við, að á yfirstandandi ári verði greidd um ½ millj.; og þeir, sem þykjast sjá gleggst fram í framtíðina, álíta, að á árinu 1931 komist styrkurinn upp í 700 þús. kr., ef enginn sérstakur afturkippur verður.

Ef útgjöld ríkissjóðs samkv. jarðræktarlögunum komast upp í ½ millj. króna á yfirstandandi ári, þá er það talsvert mikið hærra en áætlað var í fjárl. Í fjárlfrv. fyrir 1931 eru þessi göld áætluð 430 þús. kr., og er það líklega talsvert of lágt. Það er nefnilega ekki rétt, sem sumir álíta, að vegna stækkunar jarðabótadagsverksins síðastl. ár minnki útgjöld ríkisins eftir jarðræktarlögunum frá því, er verið hefir undanfarandi ár. Vitanlega minnka þau frá því, sem orðið hefði, ef stærð dagsverksins hefði ekki verið breytt, en búnaðarframkvæmdirnar fara svo hraðvaxandi, að heildarútgjöldin vaxa ár frá ári, þrátt fyrir stækkun dagsverksins.

Verði nú frv. þetta samþ., verður að hækka áætlun fjárlfrv. um greiðslu eftir jarðræktarlögunum samkv. því. Ég lít svo á, að ef samþ. verður brtt. hv. n. um 75 þús. kr. hámark á styrkgreiðslu til hlöðubyggingar, þá verði að skoða þá tölu sem áætlunarupphæð og bæta henni við þann lið fjárlfrv., sem áður var áætlaður til greiðslu samkv. jarðræktarlögunum. Hitt hefði verið hægt, ef staðið hefði í frv. allt að 75 aurum á hvert metið dagsverk, að binda í framkvæmdinni styrkgreiðsluna við einhverja ákveðna upphæð, en þá hefði aftur komið fram misrétti, ef styrkurinn hefði orðið sum árin 75 aurar á dagsverk, en sum minna. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að þó hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða, þá er varhugavert að ganga langt á þeirri braut að skylda ríkissjóð um ófyrirsjáanlegan tíma til að greiða ákveðin gjöld árlega, hvernig sem fjárhagur hans kann að verða það og það árið.