15.03.1930
Efri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2297 í B-deild Alþingistíðinda. (3058)

117. mál, jarðræktarlög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Mér finnst það vera dálítið ósamræmi hjá hv. þm. A.-Húnv., þar sem við vorum mjög ákveðnir samherjar í ljósmæðramálinu, að við ekki getum einnig verið samherjar um sparnað á þessu sviði. Mér virðist hv. þm. telja þetta of mikla smámuni, til þess að ég gengi svo langt að vera að rýra það, sem í frv. er ætlað til hlöðubygginga. En ég vildi aðeins taka það fram, að ég hefi aldrei verið manna fúsastur til að greiða atkv. með því, sem að mínu áliti er óþarfur fjáraustur í fjárl., og þess vegna getur hv. þm. ekki ásakað mig að neinu leyti fyrir það, að ég hafi viljað fara ógætilega með fjármál ríkissjóðs í fjárl. En ég lít svo á í þessu máli, að það sé mjög sæmilega greitt fyrir þessar byggingar af hálfu hins opinbera með því að veita mönnum 50 aura styrk á dagsverkið fyrir byggingar á heyhlöðum. Það má auðvitað tala um það, að ríkissjóður ætti að borga þetta að helmingi eða 1/3, eða eitthvað þar fram eftir götunum, en ég verð nú að segja það, að ég lít svo á, bæði að því er snertir framkvæmdir einstakra manna og héraða, að það eigi fyrst að reyna á kraftana heima fyrir og að það sé gert allt, sem hægt er, án þess að leita til hins opinbera.

Hv. þm. minntist á, að hann hefði getað fallizt á það, að styrkurinn, t. d. til jarðræktar, yrði eitthvað lægri. Já, þetta getur komið til mála, og það getur, meira að segja, komið til mála, að ef of langt er gengið í því að bæta útgjöldum á ríkissjóðinn til ýmsra framkvæmda, að það reki að því að þingið sjái sér ekki annað fært en að snúa aftur á þeirri braut, að það verði svo þungur baggi, að því verði nauðugur einn kostur að fara að draga sig til baka.

Hv. þm. fannst þetta ekki vera sambærilegt við votheystóftir. Mér finnst það einmitt vera sambærilegt, og ég hygg, að það hafi vakað fyrir löggjafanum, þegar þessi lög voru samin, að það þyrfti að útbreiða þær, af því að það var nýjung, sem var litið svo á, að gæti rutt sér til rúms, til þess að menn væru ekki óviðbúnir þegar vandræði bæri að höndum af óþurrkatíð. Hinsvegar voru hlöðubyggingar engin nýjung; það eru mjög gamalkunnar framkvæmdir, en hafa annars fram til skamms tíma verið byggðar úr efni, sem ekki er varanlegt, og þess vegna ekki staðið nema 10–20 ár. En hinsvegar tel ég það gott, að veitt sé einhver viðurkenning fyrir það að byggja nú þessar hlöður úr varanlegu efni og gengið þannig frá þeim, að ekki þurfi hver einasta kynslóð að byggja upp sömu bygginguna á ný.