15.03.1930
Efri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2300 í B-deild Alþingistíðinda. (3060)

117. mál, jarðræktarlög

Jón Jónsson:

Hæstv. fjmrh. hefir þótt það bezt hlýða að slengja þessum brtt. fram á síðustu stundu, svo að menn hefðu sem minnstan tíma til að athuga þær. Þessum brtt. var nú fyrst útbýtt eftir að fundur var settur. Hæstv. ráðh. virðist ætla að reyna að styðja þær helzt með því, að eftir þeim yrði styrkur til þurrheyshlaðnanna sambærilegur við styrkinn til votheystófta. Eftir því, sem ég fæ bezt séð, er það síður en svo, því ef þetta er samþ., þá verða menn styrktir til að koma upp hlöðu yfir þurrheyshestinn allt að 1/3 minna heldur en til að koma upp plássi fyrir votheyshestinn, og þar með held ég, eins og hv. 2. þm. N.-M. benti á, að þessi ástæða sé úr sögunni. Það er alls ekki sambærilegt í þessu sambandi, þurrhey og vothey. En ég held, eins og frv. liggur nú fyrir, að hlutfallsins sé nokkurn veginn sæmilega gætt. Annars er það aðalatriðið í þessu máli að athuga það, hvað við hugsum með þessu frv. Við erum fyrst og fremst að hugsa um að hvetja bændurna til að ráðast í þessar þörfu framkvæmdir, og þá er að athuga, hvort styrkur sá, sem hér er um að ræða, getur verið þeim veruleg hvatning. Nú hefir verið tekin upp sú stefna viðvíkjandi öðrum greinum jarðræktar, að styrkja þær töluvert mikið, t. d. hefir túnrækt verið styrkt þannig, að ríkið leggur fram allt að 1/3 hluta kostnaðar, eða hefir styrkt það þannig. Það hefir að vísu verið eitthvað lækkað með breyt. á, hvernig lagt er í dagsverk, en þetta mun þó ekki láta mjög fjarri lagi, a. m. k. leggur ríkið fram yfir ¼ kostnaðar, en eftir því, sem felst í þessu frv., er ekki svo hátt risið, heldur þvert á móti, að það er tæpur 1%, af kostnaðinum, sem ætla má, að styrkurinn nemi; en ef brtt. hæstv. ráðh. verður samþ., þá verður það ekki nema 1/7, sem ríkið leggur fram. Þetta fer þess vegna að verða nokkuð lítill styrkur, þegar hann er borinn saman við aðrar þær jarðabætur, sem jarðræktarlögin gera ráð fyrir, að ríkið styrki. Mér finnst, að sé það yfirleitt ætlunin að hvetja menn til að koma upp húsum, þá sé varla ráðlegt að lækka styrkinn, því að þá fari hvötin að verða svo tiltölul. lítil; og ég vil benda á, að þetta er ekki svo mikið fjárhagsatriði, því að eins og ég benti á, að þó að maður hugsi sér að byggt sé yfir allt hey landsmanna, yrði styrkurinn þó ekki nema í mesta lagi 1½ millj. kr., og vitanlega kæmi það á mörg ár fyrir ríkið að leggja þann styrk fram, svo að ég held, að hæstv. fjmrh. geti sofið nokkurn veginn rólegur fyrir því, þó að frv. verði samþ. óbreytt, og svo hefði það heldur ekki svo mikið að segja, hvort það yrði samþ. eins og hann leggur til.

Það er alveg rétt, sem hv. 2. þm. N.-M. benti á, að það er ekki vert að hafa á móti 2. brtt. hæstv. fjmrh. frá sjónarmiði fylgjenda þessa máls, ef hæstv. ráðh. óskar að fá hana samþ. En n. vildi ganga svona vallega frá, að setja hámark á það, sem greiða mætti úr ríkissjóði á einu ári vegna hlöðubygginga. En áliti hæstv. ráðh. forsvaranlegt gagnvart ríkissjóði að sleppa þessu hámarki, þá hefi ég ekkert við því að segja.