12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2303 í B-deild Alþingistíðinda. (3067)

117. mál, jarðræktarlög

Bjarni Ásgeirsson:

Ég vil eindregið mæla með því, að þetta frv. nái fram að ganga, og ég get vel fellt mig við, að fyrsta brtt. n. sé samþykkt, því að þá er jafnhár styrkur veittur á hlöðu og súrheysgryfjur, og álít ég það viðeigandi. En ég er á móti hinum lið brtt., sem fer fram á það, að styrkurinn sé takmarkaður við 50 þús. kr. hámark á ári. Ég er hræddur um, að það yrði til þess, að þessi styrkur kæmi ekki að liði nema að litlu leyti. Eins og nú er ástatt hér á landi, má gera ráð fyrir miklum hlöðubyggingum, og þá verður það svo lágur styrkur, sem fæst á hverja hlöðu, að hann kemur mönnum að litlum notum, ef ekki má veita meira fé í þessu skyni en 50 þús. kr. á ári. Ég álít því heillavænlegast að nema alveg burt slíkar takmarkanir og miða þá upphæð, sem veitt er hverjum manni, eingöngu við dagsverkatölu, allt að þeim hámarksstyrk, sem veita má hverjum einstakling í hvert skipti samkv. jarðræktarlögunum.