03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2316 í B-deild Alþingistíðinda. (3104)

54. mál, lögskráning sjómanna

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Hv. deild hefir nú þegar haft til meðferðar tvö mál, sem að nokkru leyti eru fléttuð inn í þetta, siglingalögin og sjómannalögin. Þá gat ég um það, að koma mundi fram sérstakt frv. um lögskráningu sjómanna. Ákvæði um hana í eldri lögum eru mjög ófullkomin, og að sumu leyti farið eftir gömlum venjum. Það er því mjög erfitt fyrir þá, sem lögskráninguna eiga að framkvæma, að vita, hvað eru lög og hvað ekki. Sjútvn. hefir nú fallizt á, að nauðsynlegt sé að setja ný lög um þetta efni, og mælir hún með þessu frv. með einni lítilli breyt. Það er engin efnisbreyt., heldur er aðeins snúið við orðalagi 2. málsl. 15. gr.

Aftur hefir einn nm. skrifað undir nál. með fyrirvara, og flytur hann sérstaklega allmargar brtt. Skal ég drepa dálítið á þær, þegar ég hefi skýrt nánar aðalefni frv. sjálfs.

Um leið og eldri ákvæði um þessa athöfn, lögskráninguna, eru hér færð saman í eitt og gerð gleggri, er gerð nokkur réttarbót frá því, sem áður var, um aðstöðu manna við lögskráninguna. Það hefir í mörg ár verið talið sjálfsagt, að lögskráningarstjóri skyldi aðstoða menn við að gera upp reikningana, þegar þeir eru skráðir úr skiprúmi. Í þessu frv. er lögskráningarstjóra gert að skyldu að aðstoða við reikningsskil, líta eftir samningum sjómannanna og sjá um, að ekki sé á þá hallað í neinu. Jafnframt er svo lögskráningarstjórunum fengið meira vald en þeir höfðu áður, og þeim ætlað að skera úr smærri deilum, sem upp kunna að koma milli sjómanna og umráðamanna skipanna. Sjútvn. hefir skilið nauðsyn þessara breytinga og fallizt á meginefni frv.

Þá eru brtt. á þskj. 317, frá hv. 2. þm. G.-K. — N. hefir haldið fund um þær og reynt eftir mætti að sneiða hjá árekstri. Sumar hefir hún fallizt á, en um aðrar hafa nm. óbundin atkv.

1. brtt. er þess efnis, að lögskráningarstjóra sé heimilt að fela fulltrúa innan heimilisþinghár sinnar að framkvæma lögskráningar á hans ábyrgð. Þetta er viðtekin regla, þegar ekki hefir náðzt til hreppstjóra eða annars valdsmanns, þó til þess hafi sjaldan komið. Virðist ekki ástæða til að nema þá hefð úr gildi og fellst því n. á þessa brtt.

Í 2. brtt. felst aftur á móti efnisbreyt., sem n. í heild getur ekki fallizt á. (ÓTh: Það er óþarfi að ræða um fyrri hluta brtt., því hann er tekinn aftur). Seinni málsgr. brtt. er um það, að skylda lögskráningarstjóra til að sinna lögskráningu frá kl. 9 fyrir hádegi til kl. 9 síðdegis alla virka daga, og á helgum dögum frá kl. 4–6 síðdegis. Þetta er algert nýmæli, því áður er ekki lögbundinn vinnutími neinna opinberra embættismanna. N. getur ekki mælt með því. Það mundi víðast hafa aukinn kostnað í för með sér, og sumstaðar yrðu lögreglustjórar eflaust að bæta við aukamanni, til þess að geta haft opna skrifstofu svo lengi. N. hefir óbundin atkv. um þessa brtt.; ég fyrir mitt leyti er eindregið á móti henni.

Fyrri málsgr. 3. brtt, er aðeins til skýringar, og fellst n. á hana: Seinni málsgr. getur hún líka fallizt á.

Sama er að segja um 4. brtt.; hún miðar að því að gera orðalag frvgr. skýrara, og fellst n. á hana.

A-lið 5. brtt., að „á eftir „skipstjóra“ komi: á öðru skipi en íslenzku fiskiskipi“, fellst n. á til samkomulags, þó í honum felist dálítil efnisbreyt. Í frv. er svo ákveðið, að skipstjóra skuli skylt að hafa gert upp reikning þess manns, sem úr skiprúmi skal skráður, en eftir brtt. á sú skylda ekki að ná til skipstjóra á íslenzkum fiskiskipum. Það mun í mörgum tilfellum vera útgerðarskrifstofa, sem gerir upp við fiskimennina, en ekki skipstjóri. Get ég sætt mig við þessa breyt. Um b-lið sömu brtt. er líkt að segja, þó hann hnígi að öðru efni.

Öðru máli gegnir um c-liðinn; þar er um talsverðan stefnumun að ræða. Hann er þess efnis, að fella skuli niður úr frv., ákvæðin um það, að skipstjóri og sjómaður geti hvor um sig krafizt þess af lögskráningarstjóra, að hann rannsaki reikningsgerðina milli þessara aðila og skeri úr smærri ágreiningsatriðum milli þeirra þar að lútandi. Hér er oft um svo smávægilegan ágreining að ræða, að það borgar sig fyrir hvorugan aðila að höfða mál út af honum á venjulegan hátt, og gerir það örðugt fyrir menn að ná rétti sínum. Í flestum slíkum tilfellum getur lögskráningarstjóri skorið úr, hvað rétt er eða rangt, og eftir frv. er ekki úrskurði hans heldur ætlað að vera endanlegum, heldur á hver aðili um sig að geta vísað málinu til sjódóms; mundu þeir þó líklega í flestum tilfellum sætta sig við úrskurð lögskráningarstjóra.

N. getur ekki fallizt á að fella þessi ákvæði, sem greind eru í c-lið 5. brtt., niður. Veit ég heldur ekki, hvort hv. flm. sjálfum er það mikið kappsmál.

6. brtt. er bein afleiðing af þeirri breyt., sem c-liður 5. brtt. fer fram á, og getur n. því ekki heldur fallizt á hana.

Um 7. brtt. er n. ekki heldur á einu máli. Hún fellir niður það ákvæði, að lögskráningarstjóri skuli taka á móti innieign sjómanns við lögskráningu úr skiprúmi, ef hann getur eigi mætt. Í frv. er gert ráð fyrir, að sjómenn mæti þegar lögskáð er úr skiprúmi, en eftir brtt. falla þau ákvæði niður. Annarsstaðar er talið sjálfsagt, að sjómenn séu viðstaddir þegar þeir eru skráðir úr skiprúmi, svo lögskráningarstjóri geti sett stimpil á viðskiptabækur þeirra og fram geti komið aths. við þær, ef ástæða er til. Er það líka samkv. anda sjómannalaganna. Nú hefir mér skilizt, að hv. flm. brtt. ætli að koma fram með skriflega brtt. um það, að sjómenn skuli ekki vera skyldir til að mæta, en skuli geta gert það, ef þeir óska, svo sennilega næst samkomulag um þetta atriði.

8. brtt. er afleiðing af þeim fyrri brtt., sem n. fellst ekki á.

Síðasta brtt. er aðeins leiðrétting, og ber því að samþykkja hana.

Ég hefi nú skýrt frá viðhorfi n. til þessara brtt.; vona ég, að hv. dm. athugi þau rök, sem fram hafa komið, og samþykki ekki að fella niður úr frv. atriði, sem ég hefi nú sýnt fram á, að talsverðu máli skipta.