03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2319 í B-deild Alþingistíðinda. (3105)

54. mál, lögskráning sjómanna

Ólafur Thors:

Hv. frsm. skýrði brtt. mínar nokkuð. Mun ég þó víkja að nokkrum einstökum þeirra til áréttingar.

Um 1. brtt. þarf ég engu við að bæta; vil aðeins vekja athygli á, að um hana er hv. sjútvn. sammála.

2. brtt. leyfi ég mér hér með að taka aftur, og flyt ég í staðinn skriflega brtt., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Við 9. gr.:

a. 2. málsgr. orðist þannig:

Þegar lögskráð er úr skiprúmi, skulu þeir menn, er skrá á úr skiprúmi, mæta með sama hætti, ef þeir óska þess og eigi tálma veikindi eða önnur forföll.

b. Aftan við gr. bætist ný málsgr.:

Skylt er lögskráningarstjóra að sinna lögskráningu alla virka daga frá kl. 9 árd. til kl. 9 síðd., og á helgum dögum, öðrum en föstudeginum langa og fyrri helgidegi stórhátíðanna, frá kl. 4–6 síðd.“.

Mér þykir nokkru skipta, að þessi brtt. nái fram að ganga. Fyrir mér vakir það, að gera lögskráninguna ekki margbrotnari en þörf er á: Ég hygg, að ef sjómenn væru skyldaðir til að mæta við lögskráninguna, gæti mörgum þeirra komið það meinlega, og finnst mér það óþörf kvöð. Ef þessi brtt. mín er samþ., er henni af létt, því þá er það sjómönnunum í sjálfsvald sett, hvort þeir mæta eða ekki.

Síðari lið 2. brtt. tek ég aftur og ber fram aðra svipaða brtt. til hægðarauka við atkvgr.

Um 3. brtt. þarf ekki að ræða, því um hana er n. sammála. Sama er að segja um 4. brtt. A-lið og b-lið 5. brtt. er n. líka sammála um, en c-liðurinn veldur aftur nokkrum ágreiningi; skal ég því rifja upp, hvað þar er um að ræða.

Eftir frv. á lögskráningarstjóri að koma í stað dómara, þegar smá-ágreiningur rís milli sjómanna og skipstjóra eða útgerðarmanna, en úrskurðum hans á þó að vera hægt að áfrýja til sjódóms. Ég tel að vísu heppilegt að hafa slíkan dómstól, til að skera úr smærri ágreiningsefnum, sem upp kunna að koma, án þess kostnaðar, sem leiðir af venjulegri málssókn. En það er vankantur á ákvæðum frv., að úrskurðum lögskráningarstjóra á að mega vísa til sjódóms, því víðast mun það vera svo utan Reykjavíkur, að lögskráningarstjóri er einnig formaður sjódóms. Undir slíkum kringumstæðum yrði því formaður sjódómsins að víkja úr sæti, og mundi það baka ríkissjóði talsverðan aukakostnað. Ég taldi rétt að vekja athygli á þessu með því að flytja brtt. um þetta atriði, þó ég leggi ekki sérstaklega ríka áherzlu á hana.

Ef c-liður 5. brtt. verður felldur, er 6. brtt. tekin aftur sem sjálffallin.

Um 7. brtt. er n. ekki á einu máli. Hún er ekki mjög mikilvæg, er aðeins í þá átt, að lögskráningarstjórar þurfi ekki að leysa af höndum óskyld störf, sem þeim eru ætluð eftir frv., þegar sjómennirnir mæta ekki við lögskráningu úr skiprúmi.

8. brtt. er sjálffallin, ef c-liður 5. brtt. er felldur.

Um 9. brtt. er aðeins það að segja, að hún er leiðrétting, sem n. fellst á. Yfirleitt tel ég frv. þetta til bóta, og get því greitt því atkv., hvort sem brtt. mínar ganga fram að meira eða minna leyti.