03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2320 í B-deild Alþingistíðinda. (3107)

54. mál, lögskráning sjómanna

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég hefi litlu við að bæta það, sem ég áður sagði. Hv. flm. till. hefir skýrt þær, og í raun og veru er ágreiningur ekki um nema c-lið 5. gr., og auðvitað það, sem fram kemur í skrifl. brtt. við 9. gr., um starfstíma þeirra, sem eiga að lögskrá.

Um það fyrra hefi ég ekki margt að segja, en mér virðist aðalástæða hjá. hv. flm. vera sú, að lögskráningarmenn væru dómendur í sjódómi. Rétt er það. En í mörgum tilfellum eru það aðrir en sýslumenn og bæjarfógetar, sem lögskrá. Á Vestfjörðum eru það oft hreppstjórarnir. Gæti því sýslumaður víðast verið oddamaður sjódóms eftir sem áður. Í Reykjavík er lögmaður oddamaður sjódóms, en lögskráning heyrir undir lögreglustjóra.

Skriflegu brtt. get ég ómögulega fallizt á, og ég hygg meiri hl. n. sé þeirrar skoðunar, að ekki sé rétt að lögbinda svo starfstíma þessara opinberu starfsmanna ríkisins við þetta sérstaka starf. Ég veit ekki annað en að bæði í Reykjavík og víðar hafi verið sýnd lipurð í hvívetna við lögskráningu. Og ennfremur eru í frv. ákvæði, sem gera skipum mögulegt að láta úr höfn án lögskráningar, ef skrifstofan er lokuð, en þá skal skipstjóri tilkynna lögreglustjóra bréflega um leið og hann fer, og greina nöfn ólögskráðra manna. Þessi heimild er sprottin af þörf, og mér finnst hún raunar geta nægt, án þess að þessum starfsmönnum sé bundinn þessi baggi, því að það tel ég alveg óþarft og óviðkunnanlegt mjög.